Tjaldaparið Tryggvi og Tryggvína stoðu í ströngu í óðali sínu í Ármúlanum í gær.
Hrafn nokkur gerði sér lítið fyrir og reyndi að taka óðalið af hinu spræka tjaldapari Tryggva og Tryggvínu sem vanið hafa komu sína á vorin á þak Ísólar í yfir 30 ár. Ekki hugnaðist parinu frekjan í Hrafni (nafn krummans) og beittu loftárásum ef svo má kalla. Tryggvi og Tryggvína flugu upp í loftið og steyptu sér svo niður að frekjuhundinum Hrafni. Krumminn náði að víkja sér fimlega undan, en varð að lokum að játa sig sigraðan og flaug í burtu rétt áður en blaðamaður Mannlífs náði að smella mynd af baráttunni, blaðamanninum til mikillar gremju.
Nú bíður starfsfólk í Ármúla spennt eftir ungum parsins, en tjaldurinn verpir að jafnaði tveimur til fjórum eggjum.