Vefmiðillinn DV fékk nokkra valinkunna einstaklinga til að segja sér hvar bestu pizzurnar í bænum væri að finna.
Einn þeirra er beðnir voru um álit á þessu er hinn bŕáðakemmtilegi og hnyttni blaðamaður, Þórarinn Þórarinsson, sem starfar á Fréttablaðinu.
Þetta hafði Tóti, eins og Þórarinn er alltaf kallaður, um málið að segja:
„Þegar Pizza 67 var og hét voru ekki aðeins pizzurnar þar bestar heldur voru þær síðan toppaðar með heimsendingum langt fram á nótt, þar sem hægt var að fá bæði sígarettur og franskar sendar með.
Þetta hefur aldrei verið toppað og verður varla á þessum ömurlegu tímum sem við lifum.
Ljósið í myrkrinu kviknaði þó ekki alls fyrir löngu þegar Pluto pizza opnaði á Hagamelnum.
Pizzurnar þar eru stórar og helvíti góðar sem kemur ekkert á óvart vegna þess að samkvæmt ófrávíkjanlegu náttúrulögmáli er allt mest og best á Melunum í 107.
Þar sem ég er ruddaleg týpa með vonlausan matarsmekk er ég ekkert að flækja áleggsmálin sem lúta öðru náttúrulögmáli. Tvöfalt pepperone og extra ostur og málið er dautt.“