Laugardagur 28. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Uppnám við Downingstræti 10: Sigurður mátti ekki sjást berrrassaður

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Blaðafulltrúi breska forsætisráðherrans greip í taumana þegar Spaugstofumenn ætluðu að taka upp atriði á tröppum heimilis forsætisráðherra. Atriðið þótti gróft og jafnvel ögrun við  breska heimsveldið. Karl Ágúst Úlfsson, einn forsprakka Spaugstofunnar, rifjar atvikið upp á Facebook og samskiptin við fjölmiðlafulltrúann sem birtist skyndilega á tröppum Downingsstrætis 10 þar sem Spaugstofumenn voru að gera sig klára.

„Við létum eins og við værum í miðbæ Reykjavíkur og stilltum upp myndavél. Siggi var í hlutverki Gunnlaugs Skarann og byrjaði að æfa texta sem fjallaði um bresk stjórnmál. Það stóð bobby við dyrnar á Nr. 10 og fljótlega eftir að við mættum á staðinn og byrjuðum að æfa sá ég að hann var farinn að ókyrrast. Síðan brá hann sér innfyrir dyrnar. Það leið ekki á löngu áður en hann kom út aftur í fylgd með öðrum manni. Sá stormaði ákveðnum skrefum í áttina til okkar. Ég man því miður ekki nafnið, en hann kynnti sig sem blaðafulltrúa breska forætisráðherrans. „Afsakið en hver eruð þið?“ spurði hann afar hvasst.
„Við erum Spaugstofan, einstaklega vinsælt gríngengi frá Íslandi. Við erum með margstimpluð leyfi til að vera hér,“ sagði ég.
„Gríngengi? Hvað eruð þið að gera hér?“ Honum fannst ég greinilega ekki hafa útskýrt neitt.
„Já, við erum að gera gamanþátt“, sagði ég og hélt ennþá að allt væri í lagi.
„Gott og vel, sagði hann, en hvers vegna í ósköpunum eruð þið hér við Downingstræti 10?“
„Jú, vegna þess að við erum meðal annars að fjalla um breska pólitík á svipaðan hátt og við reynum að gera íslenskum stjórnmálum skil í hverri viku, og Downinstræti 10 er vissulega heimsfrægur staður, ekki satt“?
Karl sá strax á svip viðmælandans að honum fannst þessi skýring hreint ekki fullnægjandi en svo virtist hannn ætla að gefa sig.
„Jæja já. Og hvað er það sem þið ætlið að taka upp?“
Nú hélt Karl að hann hefði undirtökin og hélt vígreifur áfram og lýsti því að Siggi Sigurjóns, léki fréttamann sem segði fréttir af því sem efst væri á baugi í höfuðstað heimsveldisins.
„Segjum það“, sagði blaðafulltrúinn með fullkomunum Oxford framburði.
Karl hélt áfram að lýsa atriðinu sem fól í sér stuttan inngang en þá komi Pálmi Gestsson, sem íslenskur kverúlant, og Randver Þorláksson í kvengervi  og ryðjast inn í mynd og girða niðrum Sigurð. Blaðafulltrúinn tók kipp.
„Girða niðrum hann?“
Karl staðfesti og gat vart haldið niðri í sér hlátrinum.
„Já, þau girða niðrum hann, vegna þess að þeim finnst eins og hann hafi ekki nýtt sér öll þau einstöku kauptækifæri sem Lundúnaborg hafi uppá að bjóða samaborið við Reykjavík, þar sem verðlagið sé svo fáránlega óhagstætt miðað við …“.
„Nei! sagði blaðafulltrúinn. Hreint ekki! Alls ekki! Hér verður ekki girt niður um nokkurn mann. Ekki hér fyrir framan Downingstræti 10. Bara alls ekki!“.

Spaugstofumennirnir frá Íslandi urðu að hörfa frá hjarta breska heimsveldisins án þess að fðá tækifæri til að girða niður um Sigurð Sigurjónsson.

Pistill Karls Ágústs á Facebook í heild sinni: Þetta var sem sagt Lundúnaferð Spaugstofunnar og ég var kominn til stórborgarinnar á undan félögum mínum til að velja tökustaði og kortleggja ferðalag okkar um borgina svo okkur mætti lukkast að skjóta tvo þætti á einum tökudegi.
Ég var í þéttu bandi við íslenska sendiráðið og það var ungur starfsmaður þar sem sótti mig á hótelið og ók mér um alla borg til að sýna mér hvernig væri auðveldast að komast á milli þeirra tökustaða sem voru á óskalista mínum. Eini staðurinn sem þessi ungi maður taldi að við þyrftum sérstakt leyfi til að taka upp á var heimili breska forsætisráðherrans, Downingstræti 10. Þetta leyfi sagði hann að íslenska sendiráðið væri þegar búið að sækja um og fá samþykki fyrir.
Spaugstofan mætti síðan galvösk ásamt tökuliði daginn eftir yfirreið mína um höfuðborg Breta.
Þegar við höfðum skotið atriði með Ragnari Reykás á Piccadilly, þar sem við lentum í útistöðum við götusala, sem taldi að við værum að hafa af honum réttmæt viðskipti, og atriði í Hyde Park, þar sem við urðum að taka til fótanna þegar við heyrðum lögreglusýrenu og vissum að við hefðum ekki leyfi fyrir kvikmyndatöku, lá leiðin að Downingstræti.
Það stóð algjörlega heima að íslenska sendiráðið hafði sótt um upptökuleyfi fyrir utan Nr. 10 og að það leyfi hafði verið veitt. Hins vegar hafði ekkert okkar gert sér grein fyrir því hvað þetta fæli í sér. Rútan okkar stoppaði við enda götunnar, en þar var fimm metra hátt járnhlið og í því stóð öflugur lögregluvörður. Fulltrúi lögreglunnar var með lista í höndunum yfir alla sem fengið höfðu leyfi til að stíga inn í Downingstræti þennan daginn. Ég var á listanum sem leikstjóri, auk Dönu kvikmyndasmiðs og leikaranna Sigga, Pálma og Randvers. Mig minnir að hljóðmaður hafi ekki fengið leyfi til inngöngu, ekki sminka, ekki búningakona, og okkar ástkæri pródúsent Tage Ammendrup varð að híma utan hliðs. Öll urðum við vitaskuld að sýna vegabréf við innganginn til að sanna hver við værum.
Við röltum upp götuna og komum að þessu látlausa húsi. John Major var nýtekinn við embætti forsætisráðherra þegar hér var komið sögu, en Íhaldsflokkurinn breski hafði mörgum að óvörum skákað Margréti Thatcher út af borðinu nokkrum vikum fyrr. Nú vorum við sem sagt staddir á yfirráðasvæði Johns Majors og Íhaldsflokksins.
Við létum eins og við værum í miðbæ Reykjavíkur og stilltum upp myndavél. Siggi var í hlutverki Gunnlaugs Skarann og byrjaði að æfa texta sem fjallaði um bresk stjórnmál. Það stóð bobby við dyrnar á Nr. 10 og fljótlega eftir að við mættum á staðinn og byrjuðum að æfa sá ég að hann var farinn að ókyrrast. Síðan brá hann sér innfyrir dyrnar. Það leið ekki á löngu áður en hann kom út aftur í fylgd með öðrum manni. Sá stormaði ákveðnum skrefum í áttina til okkar. Ég man því miður ekki nafnið, en hann kynnti sig sem blaðafulltrúa breska forætisráðherrans.
– Afsakið, en hver eruð þið? spurði hann afar hvasst.
– Við erum Spaugstofan, einstaklega vinsælt gríngengi frá Íslandi. Við erum með margstimpluð leyfi til að vera hér.
Þetta sagði ég.
– Gríngengi? Hvað eruð þið að gera hér? Honum fannst ég greinilega ekki hafa útskýrt neitt.
– Já, við erum að gera gamanþátt, sagði ég og hélt ennþá að allt væri í lagi.
– Gott og vel, sagði hann, en hvers vegna í ósköpunum eruð þið hér við Downingstræti 10?
– Jú, vegna þess að við erum meðal annars að fjalla um breska pólitík á svipaðan hátt og við reynum að gera íslenskum stjórnmálum skil í hverri viku, og Downinstræti 10 er vissulega heimsfrægur staður, ekki satt?
Ég sá það strax á svip viðmælanda míns að honum fannst þessi skýring hreint ekki fullnægjandi, en loks dæsti hann og sagði:
– Jæja já. Og hvað er það sem þið ætlið að taka upp?
Nú hélt ég virkilega að ég hefði undirtökin svo ég hélt vígreifur áfram.
– Þessi náungi hér (Siggi Sigurjóns) leikur fréttamann sem er að flytja fréttir af því sem efst er á baugi hér í höfuðstað heimsveldisins.
– Segjum það, sagði blaðafulltrúinn með fullkomunum Oxford framburði.
– Nú, hann flytur stuttan inngang, en þá koma þessi tvö (Pálmi Gests sem íslenskur kverúlant og Randver í kvengervi),og þau ryðjast inn í mynd og girða niðrum hann.
– Girða niðrum hann?
– Einmitt. – Og ég gat varla haldið niðri í mér hlátrinum.
– Já, þau girða niðrum hann, vegna þess að þeim finnst eins og hann hafi ekki nýtt sér öll þau einstöku kauptækifæri sem Lundúnaborg hafi uppá að bjóða samaborið við Reykjavík, þar sem verðlagið sé svo fáránlega óhagstætt miðað við …
– Nei! sagði blaðafulltrúinn. Hreint ekki! Alls ekki! Hér verður ekki girt niður um nokkurn mann. Ekki hér fyrir framan Downingstræti 10. Bara alls ekki!
Nú stóð ég á miðri brynvarinni götu fyrir framan þetta sögufræga hús og varð kjaftstopp í augnablik. Ég stóð andspænis blaðafulltrúa Johns Majors, sem vissulega hlaut að teljast einn af valdamestu mönnum heims um þessar mundir, og það sem mig langað mest þar og þá var að útskýra fyrir honum, þeas. blaðafulltrúanum, að þetta væri í rauninni alveg frábær brandari sem við værum í þann veginn að festa á filmu. Samt var eitthvað sem sagði mér að taka mjúklega í handbremsuna og segja þess í stað:
– Ég skil. Ég skil fullkomlega herra (sem ég man ekki hvað heitir). Auðvitað verður ekki girt niðrum nokkurn mann hér á þessum virðulega stað. En vegna þess að við erum nú með þetta leyfi í höndunum ætla ég að fá að nýta mér það og taka einungis mynd af Sigga Sigrjóns með Downingstræti 10 í baksýn, þar sem hann talar einungis íslensku og segir ekkert annað en elskulega hluti um breska heimsveldið.
Blaðafulltrúinn kinnkaði kolli, reyndar svolítið dræmt, og sneri aftur inn í bústað forsætisráðherrans.
Við ýttum á rec og tókum upp nokkur innslög með Gunnlaugi Skarann. Það fór ekkert framhjá mér að bobbyinn við dyrnar fylgdist með hverri hreyfingu okkar og ég sá líka að blaðafulltrúinn (sem ég vildi svo sannarlega óska að ég myndi nafnið á) horfði á okkur út um gluggann.
Þegar þessum tökum var lokið gengum við út um járnhliðið og ókum burt. Næsta verkefni okkar var að finna bakgrunn sem gat litið út eins og Downingstræti 10. Sem betur fer er bústaður breska forsætisráðherrans ekki einstakur í útltiiti á nokkurn hátt og í næsta nágrenni við hann má finna fjölda húsa sem líta nákvæmlega eins út. Fyrir framan eitt þeirra reyndist okkur leikur einn að girða niðrum Sigga og hafa í frammi alla þá ósiðlegu háttsemi sem þótti óviðeigandi á dyraþrepi forsætisráðherrans.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -