Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Valur Gunnarsson hélt útgáfuteiti í bókabúð Sölku með þýsku þema: LJÓSMYNDIR

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Valur Gunnarsson hélt útgáfuteiti í bókabúð Sölku á Hverfisgötunni á föstudaginn en smekkfullt var út að dyrum. Hófið var með þýskt þema enda heitir bókin Berlínarbjarmar – Langamma, David Bowie og ég. Mannlíf mætti á svæðið með lélega myndavél úr annars ágætum Samsung-síma.

Valur les úr bók sinni.
Ljósmynd: Björgvin Gunnarsson

Margt var um manninn í bráðskemmtilegri bókabúð útgáfufyrirtækisins Sölku á Hverfisgötu síðastliðið föstudagseftirmiðdegi, þegar rithöfundurinn Valur Gunnarsson hélt hóf vegna útgáfu nýjustu bókar hans. Þær Dögg Hjaltalín og Anna Lea Friðriksdóttir, sem reka búðina voru klæddar í bavaríska kjóla og buðu upp á bjór og saltkringlur að hætti Þjóðverja, sem setti skemmtilegan brag á teitið. Valur las brot úr bókinni af sinni alkunnu snilld og gladdi aðdáendur sína með hnyttnum en hugvekjandi stíl sínum.

Gestir gæddu sér á bjór og saltkringlum.
Ljósmynd: Björgvin Gunnarsson

Mannlíf spurði Val út í bókina, um hvað er hún?

„Bókin er í þrem hlutum. Sá fyrsti snýst um langömmu mína sem fæddist í Danzig við upphaf 20. aldar. Hún varð vitni að fyrri heimsstyrjöld og efnahagshruninu sem fylgdi í kjölfarið en giftist Íslending og flutti í Mosfellsbæinn. Sum systkina hennar létust í seinni heimsstyrjöld en undir lok stríðs gat hún komið færandi hendi frá gósenlandinu Íslandi. Þetta gefur svo tækifæri til að skoða stóru myndina í sögu Þýskalands.

Annar hluti fjallar um Bowie í Berlín, sem aftur gefur tækifæri til að skoða kalda stríðið og þau miklu áhrif sem rokktónlist hafði, ekki síst á fall múrsins. Þriðji hluti fjallar síðan um mínar upplifanir eftir lok kalda stríðsins sem nemi í Humboldt og blaðamaður á Berliner Zeitung. Ofan á allt er hugmyndasaga Þýskalands skoðuð og hin miklu átök á milli skynsemi og rómantíkur sem einkenna landið.“

Gestir voru duglegir að næla sér í bókina.
Ljósmynd: Björgvin Gunnarsson

Talsvert er komið inn á skynsemina í bók Vals og hversu mikið hún á undir högg að sækja í heiminum í dag. En á hún sér von?

- Auglýsing -

Valur: „Skynsemin virðist eiga undir högg að sækja þessa dagana. Tilfinningar trompa allt og þær verstu, svo sem reiði og hatur, virðast við það að tortíma heiminum. En skynsemin og systur hennar vísindin eru eina leiðin til að takast á við vandamál okkar tíma og sem og allra tíma. Hún getur bundið enda á stríð og leyst loftslagsvandann ef við leyfum henni það. Ef við eigum að trúa á eitthvað væri skynsamlegast að trúa á skynsemina.“

Hér koma nokkrar misgóðar ljósmyndir til viðbótar en fyrir neðan þær má svo lesa stórgóðan úrdrátt úr bókinni.

Þessar blómarósir mættu á útgáfuteitið.
Ljósmynd: Björgvin Gunnarsson
Valur ræður við gesti.
Ljósmynd: Björgvin Gunnarsson
Valur og Anna Lea.
Ljósmynd: Björgvin Gunnarsson
Meira að segja snúrurnar voru í laginu eins og saltkringla.
Ljósmynd: Björgvin Gunnarsson

Hér má lesa úrdrátt úr bókinni:

- Auglýsing -

Föstudagskvöldið sátum við á bakka Spree með bjór í hönd. Einhver var að spila nýju David Bowie-plötuna í bakgrunninum, þessa þar sem hann snýr aftur til Berlínar. Stund þessi var ágæt en gæti varla staðið endalaust. Við fengum okkur næst flammekueche við Linienstrasse þar sem yfirvöld voru að undirbúa sig undir að henda síðasta hústökufólki miðbæjarins út. Að máltíð lokinni kysstumst við í sófanum í horninu þar til að afgreiðslufólkið ræskti sig og rétti okkur reikninginn. Við héldum í átt að S-bahn-stöðinni og kysstumst áfram.

Lestirnar biðu sitt hvorum megin pallsins, önnur myndi leiða hana heim til mín, hin á brott. Engin haldbær rök fundust til að framlengja kvöldið og Olga hélt heim að sofa. Ég lagði á ráðin og hringdi daginn eftir. Helgin var ekki liðin. Enn var von. En Olgu virtist hafa snúist hugur. Allt gekk of hratt fyrir sig, sagði hún. Hún þurfti meiri tíma.

Mánudagur lagðist yfir austur-þýskar blokkir Alexanderplatz, enn grárri en vanalega. Sennilega var ég fastur á vinasvæðinu. Hvað um það, við ákváðum að hittast þetta mánudagskvöld. Líkt og vinir gera. „En það verður að vera einhvers staðar á lestarhringnum,“ sagði hún. Ég benti henni á að ég byggi einmitt við lestarhringinn. Hún stakk upp á að við hittumst þar. Ég var hættur að skilja nokkurn skapaðan hlut.

Ég beið eftir henni á Treptower Park-stöðinni. Hún kom. Lítið var sagt á meðan við gengum heim til mín í íbúðina á Bouchéstrasse í Treptow-hverfi, ekki ýkja langt frá sovésku styttunni. Treptow er mitt á milli hverfanna Neukölln og Friedrichshain og er stytta af þremur  mólekúl mönnum að renna inn í hvern annan þar sem hverfin þrjú mætast. Treptow hefur þó aldrei náð að vera eins svalt og hin tvö hverfin en ekki er öll von úti enn. Þegar hér er komið sögu er það að mestu byggt öldruðum Austur-Þjóðverjum sem eru hægt og rólega að deyja út og listamenn að flytja inn í staðinn. Sagt er að í hverri götu sé bæði útfararstofa og gallerí.

Vorið var komið til Berlínar og við settumst út á svalir með rauðvín og ólífur og osta. Olga talaði ekki aðeins rússnesku og þýsku og ensku heldur frönsku líka þar sem hún hafði búið í París um stund. Hún skrifaði mastersritgerð um Nabokov sem flúði frá Rússlandi eftir byltingu og flutti til Berlínar og svo Parísar og loks Bandaríkjanna sem hann var alla tíð ósáttur við. Sjálf var hún ekki viss um hvað kæmi næst. Sá sem yfirgefur heimalandið á æskuárunum á aldrei fyllilega heima neins staðar.

„Stundum finnst mér eins og ég sé að gliðna í sundur,“ sagði hún.

„Er það ekki þess vegna sem fólk kemur til Berlínar,“ sagði ég, „til þess að verða heilt?“

Við færðum okkar af svölunum í sófann og frá sófanum yfir í svefnherbergið. Allt fór eins og best verður á kosið þetta mánudagskvöld. Samt vildi hún ekki gista að því búnu. Ég klæddi mig aftur í og fylgdi henni á lestarstöðina og fór svo aftur í rúmið. Ég svaf og svaf og svaf og svaf og vaknaði svo inn í nýja veröld.

Múrinn var horfinn. Hinn klofni himinn var orðinn heill.

Bókina má nálgast á öllum helstu bókabúðum á landinu.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -