Mánudagur 23. desember, 2024
4.8 C
Reykjavik

Venus í afturhvarfi: Sambönd í krísu og gamlir elskhugar skjóta upp kollinum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í síðasta blaði töluðum við um afturhvarf Merkúrs og hvernig það getur gert okkur lífið leitt í samskiptum, tækni og tjáningu. Nú er afturhvarfi Merkúrs loks að ljúka og því fljótlega, samkvæmt stjörnuspekinni að minnsta kosti, hægt að ganga áhyggjuminni til samninga, senda tölvupóst án þess að allt misskiljist og eiga flókin samtöl við sína nánustu.

Hins vegar vill svo til að önnur pláneta er í afturhvarfi um þessar mundir. Það er plánetan Venus. Eins og gefur að skilja hlýtur hún, ef Merkúr sem er samskiptaplánetan hefur áhrif á atriði tengd samskiptum, að hafa áhrif á þau svið sem hún stjórnar – nefnilega ástina og málefni hjartans.

Í stjörnuspeki er talað um að pláneta sé í afturhvarfi þegar hún virðist hætta á sinni hefðbundnu leið umhverfis sólu og færast afturábak. Hún er ekki að fara afturábak í raun og veru; okkur virðist það bara frá jörðinni séð. Plánetan breytir hins vegar örlítið um hraða í samanburði við hreyfingu jarðarinnar og afstaða Venusar við jörðina breytist því lítillega þegar plánetan er í afturhvarfi. Í miðju afturhvarfi hverfur Venus sjónum okkar. Um það bil tveimur vikum síðar birtist plánetan aftur, glóandi fögur í himinhvolfinu í dögun.

Vegna þessa hélt samfélagið til forna að Venus væri í raun tvær plánetur. Hún átti sér því tvö grísk nöfn; Phosphorus, „ljósberi“, og Hesperus, „kvöldstjarnan“.

Venus fer í afturhvarf á um það bil 18 mánaða fresti. Hún hefur nýlokið afturhvarfi, en það var frá 19. desember síðastliðnum fram til 29. janúar. Aftur á móti er yfirleitt talað um skuggatímabil, bæði fyrir og eftir afturhvarfið, þar sem áhrifanna gætir enn. Þau eru þó vægari á því tímabili en í miðju afturhvarfinu.

 

- Auglýsing -

En hvaða áhrif hefur afturhvarf Venusar á okkur?

Venus er pláneta ástar, fegurðar og peninga. Það er því líklegra en ekki að afturhvarf plánetunnar hafi áhrif á alla þessa þætti. Fegurð er auðvitað vítt hugtak en getur átt við um umhverfi okkar, listsköpun og mýktina í heiminum.

Áhrifa þessa tímabils gætir þó oftast mest í málefnum ástarinnar. Það er ekki óalgengt að á þessum tímum minni gömul ástarsambönd á sig og fólk festist auðveldlega í fortíðarþrá. Sambandið sem endaði er allt í einu sveipað einhvers konar dýrðarljóma. Var það virkilega svo slæmt? Ég ætti kannski að hafa samband?

- Auglýsing -

Sömuleiðis virðast gömul deilumál eða sárindi í núverandi samböndum oft eiga greiðari leið upp á yfirborðið. Þannig geta gömul rifrildi tekið sig upp á ný og sár sem ekki var búið að búa nægilega vel um opnast.

Ef þú ert í sambandi finnurðu ef til vill fyrir því í auknum mæli að þú veltir tilveru þess fyrir þér. Er þetta það sem þú vilt í raun og veru?

 

Gamlir elskhugar

Það er eiginlega alveg lygilegt hversu oft það kemur fyrir að gamlir elskhugar skjóti upp kollinum þegar Venus er í afturhvarfi. Óvænt skilaboð, þótt þið hafið ekki heyrst í háa herrans tíð. Hittingur á förnum vegi. Málið er það, að þetta á það til að gerast í tengslum við sambönd sem hafa ekki fengið nægilega skýr endalok. Lokið hefur ef til vill ekki verið sett almennilega á pottinn. Þarna kemur því oft tækifæri til þess að velta því fyrir sér hvers vegna svo sé. Hugsanlega er þetta tækifæri til þess að draga línuna loksins í sandinn og loka sambandinu í eitt skipti fyrir öll. Kannski þarf að gera einhver mál upp. Ef til vill eru samskiptin ekki fullkomlega heilbrigð og þið eigið það til að fara í bakkgírinn við minnsta tilefni. Þá skiptir líka máli að setja skýr mörk.

 

Best að bíða með stórar ákvarðanir

Það sem er þó mikilvægt að hafa í huga er að það er ekki endilega góð hugmynd að taka á málunum akkúrat á meðan Venus er í afturhvarfi. Þótt þessar hugmyndir og hugsanir komi upp á því tímabili, þótt samskiptin standi til boða, er yfirleitt langsniðugast að bíða þar til eftir afturhvarfið með að taka ákvarðanir og taka á málunum. Það vill þannig til að þær ákvarðanir sem við tökum í ástamálum á þessu tímabili eru ekki endilega þær bestu fyrir okkur, eða þær lífvænlegustu. Til dæmis er algengt að taka saman aftur við gamlan elskhuga á meðan Venus er í afturhvarfi en slíta sambandinu svo jafnharðan þegar tímabilinu er að fullu lokið.

Í raun er þetta tímabil best til þess fallið að horfa inn á við og skoða ástina og sambönd gagnrýnum augum. Koma auga á eigin mynstur og endurskoða. Reyna að átta sig á því hvað væri best að kveðja, hvaða sambönd gefa manni eitthvað og hver taka of mikið frá manni.

 

Skuldbinding, öryggi og ábyrgð

Í því Venusarafturhvarfi sem nú er að líða undir lok, í skuggafasa sínum, má finna nokkuð alvarlega tóna. Venus hóf tímabilið í merki Steingeitarinnar. Það merkir að fólk geti fundið fyrir því í ríkari mæli að vilja skuldbinda sig, að það sé þreytt á að reka sig á sömu rifrildin aftur og aftur, eða að það leiti eftir ábyrgðarfyllri maka. Þarna er mikilvægt að taka sér fyrst tíma í sjálfsskoðun, enda hefjast flestar breytingar innra með okkur sjálfum. Ef þú ert í sambandi skaltu velta sambandinu fyrir þér og finna hvað virkar og hvað ekki. Hvað ert þú að leggja inn í sambandið til þess að fá út úr því það sem þú þarft?

Ef þú ert ekki í sambandi er ágætt að skoða hverju þú leitar eftir og hvort þú ert að sækjast eftir því á réttum stöðum, svo ekki sé talað um hvort þú sækist eftir sambandi í raun og veru og þá hvers vegna.

Fólk sem er einhleypt gæti fundið fyrir þörf til þess að víkka sjóndeildarhringinn. Þér finnst ef til vill eins og þú hafir leitað að ástinni á röngum stöðum, eða að sambönd þín hafi alltaf skort einhvers konar festu og öryggi. Kannski þarftu á einhverjum að halda sem getur boðið upp á skuldbindingu, traust og fjárhagslegt öryggi. Allt eru þetta sterk einkenni Steingeitarinnar og þeirrar orku sem hún færir inn í líf okkar. Í þessu tilfelli gæti verið sniðugt að breyta til og hefja nýtt og skapandi verkefni sem býður upp á nýja sýn á lífið og hugsanlega nýtt fólk í tengslum við hana. Það er algjört lykilatriði að nýta þessa orku með því að stinga sér á kaf í verkefni. Það er líklegt að það sé rökréttasta leiðin að töfrum undir þessari Venusarorku.

 

Flókinn tími fyrir pör – samskipti mikilvæg

Þar sem Steingeitin er einstaklega duglegt merki er líka mikilvægt að bera kennsl á það hvort þú sért hugsanlega að „gefa“ of mikið í ástarsamböndum. Hvort þú takir á þig mestu ábyrgðina og finnist þú ef til vill leggja of mikið inn í samanburði við hvað þú tekur út. Það er líka ágætt að velta fyrir sér hvaða pláss ástarsambandið sjálft fær, í samanburði við daglegt amstur, skyldur og vinnu. Steingeitin á það til að gera of mikið og taka of lítið fyrir sjálfa sig.

Steingeitin elskar áskoranir og því getur þessi tími að endingu orðið gjöfull fyrir pör þar sem báðir aðilarnir eru tilbúnir að leggja dálítið á sig til þess að láta sambandið ganga upp. Sú vinna sem lögð er inn mun borga sig margfalt.

Þessi tími getur verið pörum þrautaganga – en séu báðir aðilar tilbúnir að leggja svolítið á sig og eru skuldbundnir hvor öðrum, getur tengingin orðið enn þá sterkari á hinum endanum og sambandið orðið tryggara.

Þetta er góður tími til þess að athuga vel og vandlega hversu samstíga þið eruð í sambandinu; hvort markmið ykkar og draumar falla vel saman og, ef svo er ekki, hvort þið getið stillt strengi ykkar betur til þess að styðja við markmið og hugmyndir hvort annars. Ef til vill þurfið þið að skoða fjármálin, spara fyrir fjárfestingu eða framkvæmdum, gera áætlanir. Annað ykkar þarf kannski að sjá meira um framfærslu á meðan hitt sest á skólabekk. Ef til vill eru mál sem þarf að ræða, gera upp og fá aðstoð með, til dæmis hjá pararáðgjafa. Aðalmálið er að fólk tali saman og að báðir aðilar fari í duglega sjálfsskoðun, áður en ákvarðanir eru teknar fyrir sambandið.

Best er að allt komist upp á borðið áður en afturhvarfi lýkur, en fólk hefur þó tíma til þess að átta sig á hlutunum fram yfir skuggatímabilið, sem lýkur í byrjun mars. Eftir það þarf að vinna úr upplýsingunum og framkvæma.

Þetta tímabil getur haft áhrif á alla en áhrifin eru sterkust fyrir þá sem eru með Venus í merki Steingeitarinnar eða hafa Venus í sterkri afstöðu við Steingeitina, til að mynda í Krabbanum (mótstaða við Steingeit).

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -