Spéfuglinn og fyrrum þingmaðurinn Brynjar Níelsson skrifar jafnan Facebook-færslur sem slá í gegn hjá lesendum hans enda löðrandi í kaldhæðni og pílum á andstæðinga hans í pólitíkinni. Í nýjustu færslu hans talar hann um Vínbúðina:
„Það gerist margt í ÁTVR, mikilvægustu smásöluverslun landsins í huga vinstrimanna og Framsóknarmanna og næst mikilvægasta stofnun samfélagsins á eftir RÚV.“ Þannig hefst færslan en næstu orðum eyðir hann í Píratann Björn Leví Gunnarsson og mann sem misskildi hlutverk eiginkonu Brynjars þegar þau hittust í Vínbúðinni:
„Stórvinur minn, Björn Leví, var rekinn burt frá vínbúðinni þar sem hann stóð í sakleysi sínu að safna undirskriftum. Á sama tíma vatt sér að mér maður í vínbúðinni, þokkalega allsgáður, og hélt því fram að Soffía væri ekki eiginkona mín, heldur heilbrigðisstarfsmaður í notendastýrðri persónulegri aðstoð, sem sinnti sólarhringsþjónustu og kostaði skattgreiðendur stórfé.“
Að lokum segir Brynjar áfengið vera minni skaðvaldur en snjallsíminn og segir að ríkisvæðing á smásölu snjallsíma myndi breyta öllu.