Mánudagur 23. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Ragnheiður virkilega glöð með árangurinn: „Þetta er lúxusvandamál“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Flúðasveppir og Farmers Bistro eru tvö af mest spennandi fyrirtækjum á landinu þessa stundina, en þau eru bæði í eigu sömu fjölskyldunnar. Fyrirtækin hafa vaxið og dafnað mikið undanfarin ár og erfitt að fá borð á Farmers Bistro yfir sumartímann vegna vinsælda veitingastaðarins. Fyrirtækin eru skiljanlega í miklu samstarfi, en stór hluti hráefna Farmers Bistro er ræktaður af fjölskyldunni.

Með græna fingur frá pabba

Það er auðvelt að skilja af hverju fyrirtækin hafa vaxið og dafnað, enda eru þau staðsett á Flúðum, einu fallegasta bæjarfélagi landsins, og rekin af fólki sem fæddist á svæðinu. Ragnheiður Georgsdóttir er verkefnastjóri Flúðasveppa og rekstrarstjóri Farmers Bistro en hún hefur verið með puttana í ræktun frá fæðingu. „Pabbi minn stofnaði Garðyrkjustöðina Jörfa og keypti Flúðasveppi árið 2005,“ sagði Ragnheiður um hvernig ævintýrið byrjaði. Þó að hún hafi verið mikið inni í starfinu frá unga aldri flutti hún til Danmerkur til að fara í háskólanám. „Ég fór í alþjóðleg fyrirtækjasamskipti og ensku og tók svo master í viðburðarstjórnun og þjónustuhagfræði,“ segir Ragnheiður og segir að námið hjálpi mikið til í rekstri fyrirtækjanna, enda að ýmsu sem þarf að huga þegar kemur að svo fjölþættu fyrirtæki. Hún kláraði námið árið 2015 og sneri heim með gráður í hendi og reynslunni ríkari og hefur verið lykilstarfsmaður í fyrirtækjunum síðan.

Með sveppi á heilanum, en fjölskyldu í hjartanu

En þó að Ragnheiður sé að hugsa um sveppi stóran hluta dags þá setur hún fjölskylduna í fyrsta sætið. „Í frístundum mínum þá er ég voðalega mikið að verja tíma með fjölskyldu minni. Svo er ég aðeins í hestamennsku og körfubolta,“ en að stunda hestamennsku er hálfgerð skylda á Flúðum að sögn Ragnheiðar. Þá eru þau einnig mjög virk í menningarlífinu í sveitinni.

- Auglýsing -

En af hverju fór fjölskyldan í svepparæktun? „Þetta var fjárfesting sem pabbi sá að gæti orðið eitthvað meira en hún var. Fyrrverandi eigandi og hann unnu mjög vel saman í þessu og svo erum við auðvitað búin að gera svo mikið í viðbót. Pabbi hefur mikinn áhuga á ræktun og hann er svo mikill sveitakarl. Hann vill alltaf verða betri og betri og gera meira fyrir markaðinn á Íslandi.“

Portobelloborgarar Famers Bistro eru stórkostlegir

Hugmyndafræði sem byggir á nánd og nágrenni

Farmers Bistro vinnur eftir „slow food“-hugmyndafræðinni en hún snýst um að notast við nærumhverfið þegar kemur að matargerð. Því liggur það í raun í augum uppi að notast við slíkt í tilfelli Farmers Bistro. „Við erum í grænmetismekka Íslands og við erum að rækta svo mikið af þeim afurðum sem eru í almennri matargerð. Okkur langaði að búa til veitingahús sem er með mestmegnis af okkar afurðum. Þannig að við séum að teygja okkur beint í hlutina og þetta sé það ferskasta sem þú getur fengið,“ sagði Ragnheiður um málið. „Kjötið okkar er frá Laugardalshólum í Bláskógabyggð og kjúklingurinn kemur frá Ísfugli frá bæjum í nærsveitum okkar. Við bökum öll brauðin. Við erum að nota gulræturnar, paprikuna, spergilkálið, blómkálið, allar týpurnar af sveppum. Í við reynum í raun að búa til rétti sem að mestu leyti samanstanda af okkar eigin vörum.“

- Auglýsing -

Lúxusvandamál sem þarf að leysa

„Markmiðin næstu þrjú árin eru að stækka. Við náum ekki að anna öllum viðskiptavinum okkar yfir sumartímann,“ sagði Ragnheiður um framtíðina. „Við erum ekki búin að festa nein plön, en við erum byrjuð að teikna upp áætlun um hvernig við ætlum að stækka, hversu mikið og allt í þeim dúr. Það eru svo margir Íslendingar á svæðinu og auðvitað líka túristar, þannig að yfir sumartímann verður að bóka borð vel fram í tímann. Ég myndi gera það fyrr frekar en seinna. Þetta er lúxusvandamál og álag yfir sumartímann, en þetta er virkilega gaman.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -