Bíræfinn þjófur var á ferð á hóteli. Honum tókst að hafa á brott með sér ferðatösku, eigandanum til mikils ama. Ekkert er vitað um stöðu rannsóknar þess máls. Annar innbrotsþjófur var á ferðinni um svipað leyti og braust inn í skóla. Hann var ekki eins slóttugur og hótelþjófurinn og var hantekinn af lögreglu og læstur inni í klefa. Málið er í rannsókn.
Í Hafnarfirði urðu ungmenni uppvís að því að aka á grasi og valda þannig umhverfisspjöllum. Þá var lögreglu í Hafnarfirði tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir í úthverfi. Samkvæmt lýsingu var um að ræða mann og konu. Dularfulla parið hvarf sporlaust og fannst ekki þrátt fyrir leit.
Tilkynnt var símleiðis um hóp ungmenna og var eitt þeirra með hníf. Var fólkið horfið af vettvangi áður en sá sem tilkynnti lauk símtalinu og var látið þar við sitja.
Nokkuð var um að dópaðir og ölvaðir væru vistaðir í fangageymslum. Þá var einn ökumaður staðinn að verki vegna gruns um ölvunarakstur. Tilkynnt um slys þar sem maður datt af hlaupahjóli. Hinn slasaði grunaður um ölvun.