Ásmundur Friðriksson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, er ekki mikið fyrir að láta eiga inni hjá sér í umræðunni. Listamaðurinn Jón Óskar Hafsteinsson gagnrýndi það harkalega í færslu á Facebook að þingmaðurinn hygðist gera út á ferðaþjónustu í Eyjum í sumar. Í þessu skyni hefur hann stofnað fyrirtækið Þingmannaleið ohg keypt sér litla rútu. Sakaði Jón Óskar þingmanninn um að fara gegn veikburða ferðaþjónustu í Eyjum með útgerð sinni.
Ásmundur svaraði fyrir sig í blaðagrein þar sem hann fordæmir skrifin og bendir á að þingmenn hafi fram að þessu fengið að afla sér aukatekna með sjómennsku og hvaðeina án þess að uppskera fordæmingu. Þá segir hann hugmynd sína hafa verið þá að fara með túristana sína í heimsóknir til listamanna í Vestmannaeyjum. Hann gefur lítið fyrir gagnrýni Jóns Óskars og segir hana vera óhróður.
„Jón Óskar opnaði leið fyrir skítkast í minn garð, viðbjóðslegar ávirðingar, sem segja meira um þá sem slíkt láta frá sér fara en mig,“ skrifar Ásmundur.
Nú er beðið eftir fyrsta farmi ferðamanna þingmannsins og næstu lotu í einvígi listmannsins og þingmannsins …