Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, vill leyfa veðmál á Íslandi. Hún greindi frá þessu í viðtali við Morgunblaðið í gær en lögleg veðmál á Íslandi eru mjög takmörkuð. Vekur þetta vissulega athygli í ljósi slæmrar reynslu Bandaríkjanna eftir að veðmálalöggjöf var opnuð upp á gátt þar í landi fyrir nokkrum árum. Eitt af því sem hefur færst í aukana þar er að íþróttamenn séu áreittir af veðmálafíklum vegna frammistöðu í keppnum og þá hafa íþróttamenn í auknum mæli verið gripnir við að veðja á eigin frammistöðu.
Magnús Sigurbjörnsson, bróðir Áslaugar og fyrrverandi framkvæmdastjóri borgarstjórnarhóps Sjálfstæðisflokksins, gleðst eflaust yfir orðum systur sinnar en hann var um tíma framkvæmdastjóri tölfræðifyrirtækis sem sérhæfði sig í að veita veðmálafyrirtækjum gögn um íþróttaviðburði á Íslandi og var reglulega titlaður sem veðmálasérfræðingur í fjölmiðlum hér á landi.
Verði aukin veðmálastarfsemi leyfð er mögulegt að hægt verði að veðja á næsta formann Sjálfstæðisflokksins en líklegt þykir að stuðullinn á Áslaugu Örnu sé talsvert hár …