Umhverfisráðherrann, Jóhann Páll Jóhannsson, átti stórleik í Vikunni með Gísla Marteini Baldurssyni þar sem hann lýsti því hvernig væri að taka við ráðuneyti, blautur á bak við eyrun. Þá taldi hann það vera öryggismál fyrir þjóðina að hann ferðaðist með ráðherrabílstjóra. Í því samhengi sagði hann frá því að hann hefði keyrt af báða hliðarspegla bifreiðarinnar. Svo óheppilega vildi til að Brynjar Níelsson, fyrrverandi alþingismaður, var með í för í annað skiptið. Alkunna er að Brynjar er með eindæmum hvekktur og bregður við flest milli himins og jarðar. Jóhann sagðist hafa óttast að óhappið riði Brynjari að fullu.
Jóhann Páll á sér þá fortíð að hafa flett ofan af Lekamálinu svokallaða ásamt félögum sínum á DV og kom þannig Hönnu Birnu Kristjánsdóttur úr embætti dómsmálaráðherra úr pólitík og aðstoðarmanni hennar, Gísla Frey Valdórssyni á sakaskrá.
Enn aftar í fortíðinni er að finna hann sem barnastjörnu þar sem hann sló í gegn með laginu Hvar er Guðmundur? Jóhann Páll tók það lag í þættinum með miklum tilþrifum með aðstoð stórstjörnunnar Elínar Hall.
Á samfélagsmiðlum heyrðist því fleygt að þjóðin hefði eignast skemmtilegan ráðherra. Hann mun nú þurfa að sanna sig í embætti …