Nær útilokað er að Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka og hennar nánasta samstarfsfólk standi af sér skandalinn í kringum söluna á bréfum Íslandsbanka. Aðeins er talið vera dagaspursmál um það hvenær hún hættir, nauðug eða viljug. Þá er fullvíst talið að Finnur Árnason stjórnarformaður bankans muni einnig víkja til að létta af pressunni á bankanum.
Gengi bankans á markaði fellur og öll spjót standa á stjórnendunum. Þá er eftir að afgreiða pólitíska hluta málsins. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra ber þar stærsta ábyrgð sem handhafi hlutabréfa almennings í bankanum og höfundur útboðsins sem meðal annars færði föður hans, Benedikt Sveinssyni vænan ávinning. Bjarni er talinn vera á útleið úr stjórnmálum og víst er að Íslandsbankamálið hjálpar honum til að taka stökkið. Stóra spurningin er hins vegar sú hvort hann verði látinn taka ábyrgð af málinu og þá með hvaða hætti. Bjarni er á bjargbrúninni en gæti sloppið eins og stundum áður …