Í vikunni láku þær fréttir út að Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra hafi verið sæmdur stórkrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir jól. Hefð hefur myndast að sæma öllum þeim sem hafa verið forsætisráðherra slíkum krossi en Bjarni gegndi því embætti í nokkra mánuði árið 2017, allt þar til að mál föður Bjarna, Benedikts Sveinssonar, var þess valdandi að sú ríkisstjórn sprakk í tætlur.
Það sem vekur athygli er að embætti forseta Íslands sendi ekki út fréttatilkynningu um orðuveitingu Bjarna en veitti heiðurinn í kyrrþey. Embættið er þekkt fyrir að senda út fréttatilkynningar fyrir hina minnstu viðburði.
Bjarni hefur undanfarið átt undarlega og umdeilda spretti. Hann sagði af sér embætti eftir að Umboðsmaður Alþingis úrskurðaði að hann hefði farið á svig við lög í Íslandsbankamálinu þar sem faðir hans kom enn við sögu. Þá vakti furðu þegar tilkynnt var að hann hefði skipað fyrrverandi aðstoðarkonu sína, Svanhildi Hólm, sem sendiherra í Washington, vegna þess hve ofboðslega klár hún væri.
Bjarni er eflaust þakklátur fyrir þögnina og hina hljóðlátu orðuveitingu en hann hefur ítrekað mælst á undanförnum mánuðum óvinsælasti stjórnmálamaður landsins. Að margra mati ætti hann að vera um það bil sá seinasti sem ætti að uppskera slíkan heiður. Heiðra skaltu skálkinn, segir einhvers staðar …