Klofningur innan ríkisstjórnarinnar blasir við eftir eldmessu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, eftir ráðherraskiptin á Bessastöðum þar sem Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra var nauðugur látinn taka pokann sinn. Bjarna var mikið niðri fyrir þegar hann sagði að samfélagið væri að sligast undan kostnaði við hælisleitendur og það yrði að grípa til aðgerða. Með þessu sýnir hann samstarfsfólki sínu í VG fingurinn. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra var varkár í tilsvörum og á allt öðru máli og talaði fyrir hófsemi í málefnum hælisleitenda.
Ágreiningur VG og Sjálfstæðisflokksins hefir aldrei komið eins berlega í ljós. Fyrrverandi dómsmálaráðherra, tók í sama streng og formaðurinn í gær og sagði að erfitt væri fyrir Vinstri-græna að vera í ríkisstjórn. Þá lýsir hann því að VG hefði gengið á bak orða sinna í sambandi við útlendingamálin og nú væri allt komið í óefni.
Vísbendingar eru uppi um að líf stjórnarinnar hangi á bláþræði og ólíklegt sé að hún lifi út kjörtímabilið. Bjarni veit sem er að bæði flokksbrot Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Flokkur fólksins bíða þess eins að kallið komi og þeir verði kallaðir til samstarfs í stað VG. Útlendingamálin verða ekki vandamál við þau skipti. Það eru spennandi tímar framundan í stjórnmálunum …