Knattspyrnuþjálfari Vestra á Ísafirði, Davíð Smári Lamude, má vel við una eftir að hafa komið liði sínu upp í úrvalsdeild. Davíð má svo sannarlega muna tímana tvenna því árum áður var hann þekktur fyrir viðkomu sína í undirheimunum og ofbeldisbrot. Í þá daga var hann þekktur sem Dabbi Grensás og var fjarri því að vera einhver kórdrengur. Einhverjir hafa vafalítið talið að hann ætti sér litla von um að komast á beinu brautina en það fór heldur betur á annan veg. Nú fetar hann hinn þrönga stíg dyggðarinnar og er búinn að vinna það kraftaverk að koma liði sínu upp í deild hinna bestu.
Víst er að Davíð Smári getur verið mörgum þeim fyrirmynd sem vilja brjótast úr heimi ofbeldis og glæpa. Dabbi Grensás er horfinn og nýr og betri Davíð tekinn við af honum og kominn með hetjustimpil á Vestfjörðum eftir að hafa gert hið ómögulega …