Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri, er einn af þeim sem þessa dagana hangir á hurðarhúninum hjá Kristrúnu Frostadóttur til að ná oddvitasæti og verða ráðherra. Hermt er að hann sæki fast í að leiða í öðru Reykjavíkurkjördæmanna. Ekki eru allir á eitt sáttir um að það sé góð hugmynd.
Húsnæðisvandinn í Reykjavík er manna á meðal skrifaður á hans reikning, og segja menn að ofuráhersla hans á þéttingu byggðar í borginni hafi einungis leitt til uppsprengs húsnæðisverðs. Það hafi orðið til þess að ungu fólki sé nú ókleift fjárfesta í fyrstu íbúð. Enginn hafi grætt á stefnu Dags nema auðmenn sem uppsprengt húsnæðisverð hlóð undir. Verði Dagur í oddvitasæti sé sjálfgefið að þetta verði sífellt árásarefni, ekki aðeins á hann heldur þurfi aðrir frambjóðendur endalaust að svara fyrir hvernig Dagur skildi við húsnæðismálin. Gott dæmi um það sást í Silfrinu á mánudagskvöld þar sem allir formenn mættu og Inga Sædal tók gríðarlega harða snerru á húsnæðismál Samfylkingarinnar og Dags í Reykjavík sem Kristrúnu tókst ekki að svara.
Verði Dagur talsmaður Samfylkingar mun hann líka þurfa að mæta sósíalistanum Sönnu Magdalenu Mörtudóttur, sem er harður gagnrýnandi húsnæðisstefnu Dags. Kristrún og hennar fólk muni því alla kosningabaráttuna þurfa að vera í sífelldri vörn fyrir Dag. Sjálfum hefur honum illa tekist að svara þar sem hann hefur þurft að verja húsnæðisstefnuna í fjölmiðlum. Við þetta bætist að úti á landi er hann harðlega gagnrýndur fyrir að hafa þrengt Reykjavíkurflugvelli og þannig reynt að koma honum í burtu …