Hjónin Jón Baldvin Hannibalsson og Bryndís Schram standa í hreinni nauðvörn vegna ásakana fjölda kvenna um káf og kynferðislega áreitni ráðherrans fyrrverandi í gegnum tíðina. Jón Baldvin hefur þurft að verjast dóttur sinni og fjölda annara kvenna. Bryndís hefur staðið sem klettur að baki manni sínum og fullyrðir að konurnar ljúgi öllu upp. Á dögunum hljóp á snærið hjá Bryndísi þegar fyrrverandi nemandi við Menntaskólann á Ísafirði sendi henni bréf þar sem hún rekur til baka ásakandir annarra nemenda um að Jón Baldvin, þáverandi skólameistari, hefði hegðað sér mjög ósiðlega í sundi í Bolungarvík og víðar um Vestfirði þar sem nemendur og kennarar gerðu sér glaðan dag. Bryndís birtir bréf á bb.is þar sem kona lýsir annarri upplifun. „… Kennararnir voru margir ungir að árum, sumir hverjir nánast jafnaldrar útskriftarnemanna. Þarna var til dæmis ungur kennari sem ærslaðist í stelpunum, kafaði undir þær í lauginni og kitlaði þær. Einhver hélt því fram að hann hefði gripið í bikiníbuxur á einni þeirra – ég veit ekki hvað satt er í því …,“ stendur að sögn í dularfulla bréfinu. Bréfritari kveðst hvergi hafa séð neitt ósæmilegt til skólamestarans í hinnui umtöluðu ferð. Vandinn er sá að konan er nafnlaus og nýtist því ekki í málsvörninni. Magir hafa samúð með Bryndísi. Jón Baldvin stendur í málaferlum vegna málanna á tvennum vígstöðvum. Annars vegar er hann að eigin frumkvæði í málaferlum við dóttur sína, Aldísi Baldvinsdóttur, en hins vegar verst hann ásökunum um að hafa káfað á Carmen Jóhannsdóttur og sært blygðunarkennd hennar á Spáni.
Dularfulla bréfið í heild sinni:
“Ég man vel eftir dimmisjóninni 1979. Hún hófst með siglingu yfir í Súðavík þar sem Hálfdán sveitarstjóri (fyrrverandi skólabróðir í MÍ) tók á móti okkur á bryggjunni og bauð okkur til kaffisamsætis í mötuneyti frystihússins. Síðan var siglt yfir til Bolungarvíkur þar sem hópurinn fór í sund áður en haldið var til veislu heima hjá foreldrum Elíasar Jónatanssonar. Í sundlauginni var fólk farið að finna á sér og hlaupin ærsl í mannskapinn, bæði kennara og nemendur.
Kennararnir voru margir ungir að árum, sumir hverjir nánast jafnaldrar útskriftarnemanna. Þarna var til dæmis ungur kennari sem ærslaðist í stelpunum, kafaði undir þær í lauginni og kitlaði þær. Einhver hélt því fram að hann hefði gripið í bikiníbuxur á einni þeirra – ég veit ekki hvað satt er í því.
Hins vegar fannst mér vont að sjá, áratugum seinna, þegar þessir atburðir voru rifjaðir upp í blöðum – og þá í tengslum við ásakanir Aldísar í garð föður síns – að hegðun þessa unga manns skyldi vera yfirfærð á Jón Baldvin.
Það var alls ekki Jón Baldvin sem hamaðist í stelpunum í lauginni – heldur var það þessi umræddi og þáverandi kennari sem nú er ráðsettur maður – og engum dettur í hug, held ég, að orða hann við áreitni eða óviðeigandi hegðun gagnvart konum, svo ég viti. Þarna var vissulega vín á fólki og eitt og annað sem úrskeiðis fór. Þessi ungi kennari og annar til voru full uppteknir af námsmeyjunum.
Ég man þó ekkert eftir Jóni Baldvini í því samhengi, og ekki heldur eldri kennurunum, sem voru með í för, að þeir hafi neitt skipt sér af kvenfólkinu í sundlauginni.
Ég get ekki útilokað að einhver skólasystkini mín hafi upplifað eitthvað annað en ég eða séð þessi atvik í öðru ljósi.
Ég get bara vottað það sem ég upplifði og man.
Svona man ég þetta”.
—————————————-