Guðni Th. Jóhannesson hefur undanfarið legið undir feldi og íhugað hvort hann eigi að taka þriðja kjörtímabilið sem forseti Íslands. Forsetinn nýtur fádæma vinsælda og víst að hann mun ná kjöri að óbreyttu, ef hann vill. Eins og greint var frá þessum vettvangi hefur hann undanfarið leitað ráða hjá fólki.
Fjölmiðlar hafa fram að þessu gefið Guðna svigrúm til þess að taka ákvörðun og ekki elt hann uppi með spurningar. Undantekning varð á þessu þegar Sigríður Hagalín Björnsdóttir, fréttamaður RÚV, gat ekki lengur setið á sér og spurði Guðna, iðandi af forvitni, um áform hans. Forsetinn varð vandræðalegur en svaraði því svo til að hann hefði ekki tekið ákvörðun. Greina mátti að honum var misboðið vegna framhleypninnar og hann bætti við að það yrði ekki í viðtali við Sigríði sem hann myndi segja frá ákvörðun sinni …