Ein af furðulegri uppákomum sem orðið hafa í sjónvarpi mátti sjá í Vikunni með Gísla Marteini. Á meðal gesta var Einar Þorsteinsson, formaður borgarráðs, sem fær það verkefni sem nýr borgarstjóri að greiða úr skuldaflækjum Reykjavíkurborgar. Nokkuð var gengið á Einar með áleitnum spurningum um þessa stöðu og hann spurður hvort hann teldi sig svikinn. Áhorfendur veittu því eftirtekt að eyru Einars roðnuðu smám saman og urðu á endanum eldrauð.
Í stað þess að stöðva útsendinguna var gripið til þess ráðs að leysa vandann í beinni útsendingu. Gísli Marteinn reifaði vandann og kallaði til sminku sem huldi eyru verðandi borgarstjórans með farva svo allt varð eðlilegt á ný. Útskýrt var fyrir áhorfendum að það væru sviðsljósin en ekki stressandi skuldirnar sem hefðu farið svona með eyru kappans …