Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindvíkinga, hefur unnið hug og hjörtu þjóðarinnar í þeim erfiðleikum sem hans fólk glímir við þessa dagana. Hann kemur fram af æðruleysi og festu fyrir hönd bæjarbúa sem eru á vergangi eftir að bærinn var rýmdur. Þar ber hann höfuð og herðar yfir Víði Reynisson yfirlögregluþjón og marga þá sem hafa stigið fram til að taka stjórnina í málum Grindvíkinga og setja þeim skorður.
Fannar var ráðinn sem bæjarstjóri í ársbyrjun 2017 og endurráðinn síðan. Hann var áður oddviti Rangárvallahrepps. Seinna varð hann útibússtjóri hjá Kaupþingi og Arionbanka. Einhverjir horfa hýru auga til Fannars fyrir næstu alþingiskosningar og víst er að hann verður eftirsóttur í oddvitasæti. Samfylking er á meðal þeirra sem leitar öflugra frambjóðenda til að taka þátt í baráttu sem stefnir í að færa þeim stórsigur af sömu stærðargráðu og þegar formaðurinn Össur Skarphéðinsson halaði inn 32 prósent fylgi kjósenda fyrir flokk sinn. Fannar yrði Samfylkingu góður liðsauki …