Sunnudagur 22. desember, 2024
-4.3 C
Reykjavik

Frystitogari fullur af Covid-sjúklingum í þrælahlekkjum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Útgerð og skipstjóri frystitogarans Júlíusar Geirmundssonar ÍS eru sek um að hafa stofnað mannslífum í hættu með því að  halda sjó þrátt fyrir að stærstur hluti áhafnarinnar hafi verið veikur. Þrátt fyrir endurtekin tilmæli sóttvarnayfirvalda hélt skipstjórinn ekki til hafnar til að láta skima fyrir veirunni og kom hinum  sjúku í skjól. Þvert á móti var haldið áfram í túrnum með þeim afleiðingum að nánast allir úr áhöfninni veiktust. Þegar skipið hélt til hafnar, rúmum tveimur vikum eftir að veikindin hófust, til að taka olíu voru menn loksins skimaðir. Þá voru nokkrir í raun óvinnufærir. Einn, rúmlega sextugur sjómaður, var mjög veikur. Læknir lagði til að manninum yrði komið  á sjúkrahús. Hann hafnaði því og skipstjórinn féllst á vilja mannsins og skipið sigldi úr höfn til hafs með illa haldinn Covid-sjúkling um borð. Meðal þeirra sem smituðust snemma í túrnum var matsveinninn, sem veikur þurfti að annast matseld. Menn geta velt fyrir sér hversu margar smitleiðir.

Þegar kom á daginn á 21 degi að stærstur hluti áhafnar var smitaður, var skipinu strax snúið  til hafnar. Skipið var þrifið hátt og lágt á landleiðinni af mönnum sem sumir hverjir voru með Covid og þurftu að standa tímunum saman í gufumekki og með lungnasjúkdóm. Skipstjórinn lagði hart að áhöfninni að tjá sig ekki við fjölmiðla. Alið var á þrælsótta og menn máttu ekki segja frá meðferð sem er nánast ómanneskjuleg. Í samfélagi sem fyrir áratugum síðan setti vökulög til að stöðva þrælahald um borð í togurum á Íslandi ætti þetta ekki að vera mögulegt. Nú birtist fólk það með afgerandi hætti að um borð í Júlíusi voru menn sem nutu ekki lágmarksmannréttinda og voru í senn hraktir og smáðir. Fárveikir af lífshættulegum lungnasjúkdómi var þeim gert að vinna í gufumekki með háþrýstidælur.

Gert að vinna í gufumekki með háþrýstidælur

Algjör þöggun var í fyrstu um ástandið um borð í Júlíusi Geirmundssyni ÍS. Skipstjórinn hélt sínum mönnum í heljargreipum, í orðisns fyllstu merkingu. Blaðamaður Mannlífs reyndi allar leiðir til að fá staðfestingu á orðrómi þess eðlis að skelfilegt ástand væri um borð í skipinu. Enginn vildi í fyrstu tala. Forsvarsmenn útgerðarinnar létu kvisast út að sóttvarnalæknir umdæmisins hefði ekki talið ástæðu til að koma mönnum í land og undir læknishendur. Það átti sem sagt að varpa sökinni af herðum Sveins Arnarsonar skipstjóra og Einars Vals Kristjánssonnar framkvæmdastjóra yfir á heilbrigðisyfirvöld á Vestfjörðum. Súsanna Björg Ástvaldsdóttir læknir upplýsti þá í Mannlífi að  á þriðja degi í túrnum hefði hún lagt að útgerðinni að koma með áhöfnina í land í skimun. Þegar Mannlíf birti þessa frétt brást Sjómannasamband Íslands hart við og fordæmdi meðferðina á mönnunum. Hákon Blöndal, yfirvélstjóri á Júlíusi, fordæmdi framgöngu skipstjóra og útgerðar á Facebook-síðu sinni. Þetta er ljóta helvítis yfirklórið og drullumokstur. Hérna er ekki öll sagan sögð og menn þurfa að taka sig saman í andlitinu og viðurkenna mistök. Við grun um Covid smit um borð ber skipstjóra að hafa samband við landhelgisgæslu Íslands ….,“ skrifaði hann. Eftir yfirlýsingu Hákonar, sem var í fríi þennan túr, var sem þrælahlekkirnir féllu af mönnunum sem voru misnotaðir af útgerð sinni og skipstjóra sem ekki reyndist starfi sínu vaxinn. Mál þeirra var tekið upp hjá verkalýðsfélagi þeirra sem áður hafði lítið aðhafst og rannnsóknar krafist.

Skipstjóra og útgerð bar, lögum samkvæmt, þegar í stað að tilkynna um veikindin og bregðast við þegar fyrsti maðurinn féll í valinn. Skipstjórinn átti að  gera allt sem þurfti til að koma mönnum sínum í skjól. Það gerði hann ekki og lét reka á reiðanum og lét áhöfnina til að vinna í umhverfi sem var lífshættulegt vegna smita. Veikir menn unnu við erfiðar aðstæður á hafi úti, hræddir um að missa plássin sín ef þeir létu sjúkdóminn alræmda gera sig óvinnufæra. Þeir sem bera stærsta ábyrgð í þessu máli eru Sveinn skipstjóri, sem brást áhöfn sinni, og Einar Valur, framkvæmdastjóri sem brást launþegunum og eigendum Hraðfrystihússins Gunnvarar. Þessir tveir aðalleikarar í hryllingssögunni um Júlíus Geirmundsson eiga það sameiginlegt að forðast fjölmiðla og svara ekki fyrir alvarleg brot sín. Þessir menn ættu að sjá sóma sinn í því að biðjast undanbragðalaust fyrirgefningar á  afglöpum sínum.

Þetta er ljóta helvítis yfirklórið“

Yfirvöldum ber skylda til þess að rannsaka þetta mál til hlítar og lögsækja menn ef ástæða er til. Lögum samkvæmt er skipstjóra falið nánast alræðisvald um borð í skipum. Ábyrgð skipstjórans er í samræmi við það. Lögreglan á Ísafirði hefur ekki enn séð ástæðu til rannsóknar málsins. Þar eru menn væntanlega meira uppteknir við hraðamælingar á Skutulsfjarðarbrautinni. Skipstjórinn sem brást áhöfn sinni og útgerðin sem var að halda niðri kostnaði með mannslíf undir verða að svara til saka. Er hugsanlegt að hann hafi verið beittur þrýstingi af útgerðinni til að halda fullu skipi af Covid-sjúklingum utan læknishjálpar. Gerðist þetta allt vegna vanþekkingar? Ótal spurningar liggja í loftinu. Rannsókn er óumflýjanleg.

Fyrirvari: Höfundur greinarinnar á nákominn ættingja í áhöfn skipsins. 

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -