Það færist í aukana að Grindvíkingar verði fyrir aðkasti þar sem þeir hafa komið sér fyrir á meðan byggðarlag þeirra er lokað. Þetta var upplýst í þætti Geðhjálpar í gærkvöld þar sem fjallað var um andlega erfiðleika fólks og geðsjúkdóma. Grindvíkingurinn Páll Valur Björnsson, fyrrverandi alþingismaður, var á meðal gesta. Fram kom að dæmi séu um að grindvísk börn séu kvalin og ofsótt með því að þau eigi hvergi heima. Ljótt ef satt er.
Mörgum er reyndar í fersku minni að þegar Vestmannaeyingar fluttu upp á land á meðan gaus í Heimaey var nokkuð um að illkvittið fólk velti sér upp úr því að þeir væru á framfæri Viðlagasjóðs eða Villa frænda eins og fyrirbærið kallaðist.
Framferði ofsækjenda Grindvíkinga var fordæmt í þættinum. Það voru þau Viktoría Hermannsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson sem stjórnuðu þættinum með sóma …