Eins og greint var frá í Mannlífi kom upp matareitrun á þorrablóti Jökuldælinga í Brúarásskóla fyrir austan þar sem Guðrún Hafsteinsdóttir, alþingismaður og frambjóðandi til formennsku í Sjálfstæðisflokknum, var stödd. Mannlíf hefur ítrekað reynt að ná sambandi við Guðrúnu til að fá upplýsingar um ástand hennar. Hún hefur í engu svarað og var uppi ótti um að óværan hefði lagst á hana.
Jakob Bjarnar Grétarsson, blaðamaður á Vísi, á ættir að rekja austur. Honum tókst með harðfylgi nokkru að upplýsa að formannsefnið hefði sloppið við magakvalir og steinsmugu sem gjarnan fylgja óværunni. Sigvaldi H. Ragnarsson, bóndi og limur í þorrablótsnefndinni, staðfesti við hann að Guðrún væri við góða heilsu.
„„Jújú, hún var þarna stödd. Ég mætti á fund hjá henni klukkan 11 daginn eftir. Hún var á þeim fundi og hélt svo áfram sinni fundarferð. Og bar mikið lof á þorrablótið. Þannig að hún var uppistandandi,“ sagði Sigvaldi bóndi. Málið er upplýst og Guðrún þeysist alheil um landið og leitar atkvæða í slagnum við Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur …