Meint yfirvofandi ráðherraskipti Sjálfstæðisflokksins eru orðin vandræðaleg fyrir Bjarna Benediktsson formann sem lofaði því við upphaf kjörtímabilsins að Guðrún Hafsteinsdóttir, fyrsti þingmaður Sunnlendinga, yrði dómsmálaráðherra þegar 18 mánuðir væri liðnir af kjörtímabilinu. Jón Gunnarsson, náinn samherji Bjarna, átti að hita upp fyrir Guðrúnu í dómsmálaráðuneytinu. Hann situr enn og ekkert fararsnið á honum. Jón þykir reyndar hafa staðið sig vel í ýmsum málum og vera duglegur þótt verk hans séu umdeild.
Guðrún var spurð um þaðí fjölmiðlum í gær hvað væri að frétta af ráðherraskiptunum en hún stóð á gati og sagðist ekki hafa hugmynd um það hvað væri að gerast í málunum en taldi víst að staðið yrði við loforðið. Hún opnaði jafnframt á þann möguleika að hún gæti tekið annað ráðuneyti. Vandinn er sá að enginn ráðherra vill fara og allra síst höfuðandstæðingur Bjarna, Guðlaugur Þór Þórðarson, sem Bjarnamenn vildu láta fá sendiherrastarf í Washington gegn því að hann losaði ráðherrastólinn. Hann kærði sig ekkert um og stefnir ótrauður til æðstu metorða í flokknum. Einhverjir horfa bænarauugum til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, ráðherra háskólamála, en hún heldur fast í sinn stól og er ekki á þeim buxunum að gera Bjarna greiða …