Gríðarleg harka er hlaupin í formannsslag þeirra Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur og Guðrúnar Hafsteinsdóttur. Á hverfisfundi í Fossvogi í fyrradag þykjast stuðningsmenn Guðrúnar merkja að smalað hafi verið fyrir Áslaugu til að tryggja að hennar fulltrúar næðu inn á landsfund. Barist er um öll sæti á landsfundinum þar sem fulltrúarnir munu ráða hver verður næsti formaður Sjálfstæðisflokksins í stað Bjarna Benediktssonar sem hrökklaðist af formannstóli í kjölfar sögulegs taps í kosningunum í desember.
Til tíðinda dró á aðalfundi Félags sjálfstæðismanna í Smáíbúða-, Bústaða- og Fossvogshverfi. Erlendur Borgþórsson, fyrrverandi formaður félagsins, sem hefur verið virkur í flokknum í áratugi, fékk ekki sæti á lista félagsins fyrir landsfund. Hann sagði við Vísi að ljóst væri að fylking Áslaugar Örnu hafi smalað á fundi hverfisfélagsins. „Þetta er náttúrulega gegn öllum hefðum í flokknum,“ segir Erlendur við Vísi og heldur því fram að þeir sem valdir eru á landsfund hafi starfa innan flokksins og sinnt sjálfboðaliðastarfi í um árabili og hafi yfirleitt verið sjálfkjörnir.
Þessi staða er nokkuð merkileg í því ljósi að Guðlaugur Þór Þórðarson, einn helsti stuðningsmaður Guðrúnar, er þekktur fyrir að hafa sterk tök á hverfafélögum í Reykjavík og annálaður fyrir klókindi við að ná þeim styrk sem þarf.
Erlendur segir að hallarbylting hafi átt sér stað í félaginu og það sama hafi verið reynt í Árbæjarhverfi fyrir áramót og Neshverfi og Holtahverfi í vetur. Hann segir ófriðarástand ríkja hjá hverfafélögum Sjálfstæðisflokksins og þessu sé „stjórnað af Áslaugu Örnu“ sem kyndi upp ófriðarbál.
Þetta stríð í myrkviðum Sjálfstæðisflokksins er ekki síst merkilegt fyrir þær sakir að bæði Áslaug og Guðrún hafa haldið því fram að þær beiti engum bellibrögðum i baráttunni og séu nánast eins og systur …