Vaxandi óróleiki er innan Sjálfstæðisflokksins vegna fylgis sem hefur ekki mælst minna. Frá blómatíma flokksins hefur fylgið skroppið saman um meira en helming og er nú svo komið að Kristrún Frostadóttir og Samfylkingin bera höfuð og herðar yfir hinn gamla valdaflokk. Það er útbreidd skoðun innan Sjálfstæðisflokksins að Bjarni Benediktsson formaður eigi sér enga framtíð innan flokksins. Fæstir þora þó að nefna slíkt upphátt, enn sem komið er.
Sjálfur hefur Bjarni bæði leynt og ljóst hlaðið undir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur fjármálaráðherra sem arftaka. Efasemdir eru uppi um þá lausn á forystuvandanum og sífellt fleiri horfa til Áslaugar Örnu Sigurbjörsdóttur háskólaráðherra um að taka við flokknum og reisa hann úr öskunni. Þá bíður hulduher Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfsráðherra, grár fyrir járnum, á kantinum albúinn þess að styðja sinn mann til formennsku. Guðlaugur fékk um 40 prósent atkvæða Þegar hann skoraði Bjarna á hólm og þykir líklegur til að leggja hann í næstu atrennu, ef til kemur. Sjálfur hefur hann haldið sig til hlés undanfarna mánuði og fátt sagt. Rúmt ár er til kosninga, klukkan tifar, og flokkurinn skreppur saman …