Leikrit Bjarna Benediktssonar utanríkisráðherra í kringum „afsögn“ hans sem fjármálaráðherra hefur kallað á fleiri spurningar en þeim sem svarað var með hrókeringunni. Það hafði legið í loftinu allt síðan í fyrravetur að Bjarni væri tilbúinn með þá fléttu að skipta um stól við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur og gera hana að formanni án kosningar. Greint var frá fyrirhugaðri fléttu á þessum vettvangi í maí síðastliðnum. Allt hefur gengið eftir nema sjálf afsögnin.
Þess er beðið hvort Sjálfstæðisflokkurinn rísi úr öskustó fylgistaps í næstu könnun og kjósendur fagni þannig sjónarspili Bjarna. Engum dylst að Bjarni er pólitískt séð búinn að vera en gæti haldið áfram sem óbreyttur flokksmaður. Líklegt er talið að hann muni hætta við næstu kosningar og jafnvel verða sendiherra í Washington. Sú staða er frátekin.
Í myrkviðum valdakjarna flokksins er hvíslað um að Bjarni hafi enn þau áform að afhenda Þórdísi formannskeflið áður en til landsfundar flokksins kemur og styrkja hana þannig í komandi formannsslag. Yfirgnæfandi líkur eru á því að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra vísinda og háskóla, bjóði sig samt fram sem formann. Aftur á móti er talið líklegt að Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra muni sitja hjá og styðja Þórdísi gegn samkomulagi um eitt og annað sem styrki stöðu hans í flokknum. Stuðningur Guðlaugs mun skipta máli þar sem hann var með fylgi 40 prósenta landsfundarfulltrúa í slagnum við Bjarna og skyldi formanninn eftir veikari en nokkru sinni fyrr …