Sáralitlar líkur eru á því að Sjálfstæðisflokknum takist að komast í stjórn og halda þannig pólitísku lífi í Bjarna Benediktssyni formanni. Sú staða er ömurleg fyrir flokkinn sem kann engan veginn að fóta sig í stjórnarandstöðu eins og sést á ástandi borgarstjórnarflokksins þar sem Hildur Björnsdóttir fer fyrir sundurleitri hjörð og bíður þess eins að verða kosin í burtu, rétt eins og formaðurinn sem er í pólitískri öndunarvél.
Líkur eru á því að ný ríkisstjórn Flokks fólksins, Samfylkingar og Viðreisnar fæðist fyrir jól. Einhverjir hnökrar í viðræðunum hafa vakið vonir hjá Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, um að glufa myndist fyrir hann til að komast inn í samstarfið. Hann mun vera meira en tilbúinn til að semja um hvaðeina. Hermt er að hans innsta þrá sé að komast aftur á valdastól og fá þannig uppreist eftir Wintris-málið. Enn er von.
Vandinn kann að vera sá að honum sé illa treystandi eins og Björn Leví Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, hélt fram á Samstöðinni. Þar fullyrt hann að Sigmundur Davíð væri ekki stjórntækur þar sem ekkert væri að marka orð hans. Þung orð þar …