Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra er í vanda vegna bankabrallsins með hlutinn í Íslandsbanka sem rann til útvalinna fjárfesta. Allt er á suðupunkti innan VG vegna málsins, enda hefur flokkurinn hingað til verið talinn vilja vinna gegn spillingu en ekki vera hýsill hennar. Ungliðar VG eru ævareiðir vegna þess skjóls sem Katrín hefur veitt Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra sem ber stærsta pólitíska ábyrgð á útboðinu og er með dökka fortíð í viðskiptum. Athyglisvert er að harðasta gagnrýnin kemur frá Framsóknarflokknum en Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra sagði frá því að hún hefði mótmælt aðferðinni við bankasöluna á undirbúningsstigi.
Hávær krafa er uppi um afsögn Bjarna en meðal þeirra sem fengu dúsu í útboðinu var faðir hans, Benedikt Sveinsson athafnamaður. Katrín hefur boðað að hún muni tjá sig um málin í dag. Ólíklegt er þó talið að hún muni knýja Bjarna til afsagnar eða slíta ríkisstjórnarsamstarfinu. Líklegra er talið að hún muni reyna að róa almenning með því að varpa ábyrgði á Bankasýsuna, boða rannsókn og halda svo áfram eitruðu sambandi VG við Sjálfstæðisflokkinn. Engin leið er góð fyrir Katrínu í stöðunni og hún er í bölvuðu klandri. Hún getur þó vonað að þjóðin gleymi eins og oft áður og óveðrið gangi yfir …