Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, verður efsti maður á lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi. Í þriðja sæti verður Ólafur Ísleifsson, fyrrverandi alþingismaður. Þeir eiga það sameiginlegt að Inga Sæland rak þá úr Flokki fólksins eftir rassaköstin og illmælgina á Klausturbar forðum þar sem tvímenningarnir komu saman ásamt fiorystu Miðflokksins. Umræðuefnið var helst pólitískir andstæðingar sem voru úthrópaðir og hrakyrtir. Klausturundurinn var öðrum þræði hluti af því makki að þingmenn Flokks fólksins gerðust liðhlaupar og gengju til liðs við Miðflokkinn.
Klausturmenn hafa sumir hverjir gengið svipugöngin og átt erfitt uppdráttar eftir að upptökur með rausi þeirra voru gerðar opinberar. Flestir féllu af þingi. Þetta hefur valdið þeim þjáningu og krafa er uppi um að fulltrúar íslensku þjóðarinnar biðji suma þeirra afsökunar. Væntanlega verður þar horft til Breiðuvíkurdrengjanna og bóta sem þeir fengu.
Í kröfunni um uppgjör og afsökunarbeiðni hefur sérstaklega verið vísað til Gunnars Braga Sveinssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra, sem vermir annað sæti á lista Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi. Nú eru allir Klausturkarlarnir komnir aftur í framboð og virðist nokkur eftirspurn eftir þeim.
Með framboði Karls Gauta og Ólafs má segja að allir hafi fengið nokkra uppreist æru fyrir þá ósvífni að opinbera illmælgi þeirra og dólgshátt. Því eins og segir í dægurlaginu þá komu þeir allir aftur, karlarnir á kútternum …