Ekki hefur kveðið mikið að Páli Magnússyni, alþingismanni Sjálfstæðisflokksins, það sem af er kjörtímabilinu. Páll er rólyndismaður allajafna en glímir þó við reiði endrum og eins, svo sem kom fram í viðtali við hann fyrir margt löngu. Mesta athygli hefur Páll vakið með því að fara í fýlu þegar hann fékk ekki ráðherrastól í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins. Þá hefur hann leikið stórt og umdeilt hlutverk í klofningi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum. En nú hefur Páll tekið til hendinni og leggur til „… lítið skref í átt að því að stuðla að meiri sátt í samfélaginu um fiskveiðistjórnunarkerfið,“ eins og hann orðar það við Morgunblaðið. Með frumvarpinu skal kveða á um að þegar einstakur aðili kaupir hlut í öðru útgerðarfyrirtæki, sem á fiskiskip með aflahlutdeild, hvort sem keyptur er minni- eða meirihluti, reiknist það hlutfall aflaheimilda við það sem fyrir var í eigu kaupanda. Fremur ótrúlegt er að félagar hans samþykki frumvarpið og líklegt að kosningakvíði ráði framtakssemi þingmannsins. Svo vísað sé til frægs nafna Páls þá má getra ráð fyrir að Palli sé einn í flokknum …