Kristján Loftsson, forstjóri Hvals, er gríðarlega umdeildur fyrir það ævistarf sitt að veiða hvali og nýta afurðir þeirra. Sjálfur lætur hann sér fátt um finnast og sýnir andstæðingum sínum gjarnan hnefann. Fram kemur í fjölmiðlum í dag að svissneskt einkafyrirtæki með dróna hafi komið sér fyrir í hlíðinni fyrir ofan hvalstöð Kristjáns í Hvalfirði þar sem starfsmenn unnu að hvalskurði. Starfsmennirnir gengu á fund svissnesku fjölmiðlamannanna og veittu þeim tiltal. Einn manna Kristjáns sá sér leik á borði og greip með sér drónann við lítinn fögnuð eigendanna sem kærðu fyrir þjófnað. Kristján mun hafa sagt að Svissslendingarnir hefðu brotið lög með lágflugi sínu og það kæmi ekki til greina að skila drónanum sem væri sönnunargagn fyrir glæpnum. Ekki er víst að hann græði mikið á þessu stríði sem færir honum gríðarlega neikvæða athygli og verður málstað hjans væntanlega ekki til framdráttar …