Kristján Þór Júlíusson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, situr ekki auðum höndum eftir að hann hætti í stjórnmálum. Mogginn upplýsir að hann hefur leyst af sem skipstjóri á hvalaskoðunarbátnum Hólmasól á Akureyri. Kristján Þór var gríðarlega umdeildur undir lok stjórnmálaferils síns vegna innmúraðra tengsla við Samherja, þann alræmda sjávarútvegsrisa. Þorsteinn Már og félagar hans nefndu ráðherrann sinn mann við namibíska félaga sína sem náðu að tvinna saman viðskipti og stjórnmál. Samherji er bendlaður við mútumál í Afríku og að hafa borið fé á fólk tengt stjórnmálum til að komast yfir kvóta.
Tengsl Kristjáns Þórs við Samherja urðu honum að falli þótt hann hefði ekkert með meintar mútur að gera. En nú brosir framtíðin við honum. Einn besti blaðamaður Moggans, Sigurður Bogi Sævarsson, tók viðtal við ljómandi glaðan ráðherrann fyrrverandi um borð í Hólmasól sem nú hringsólar um Eyjafjörð til að leita hvala, laus undan argaþrasi stjórnmálanna …