Einar Kárason, rithöfundur og álitsgjafi, lætur sjaldnast neinn eiga inni hjá sér. Guðmundur Andri Thorsson, félagi hans í stétt rithöfunda, gerði grín að Einari eftir að sá síðarnefndi hafði kvartað opinberlkega undan því að hafa ekki fengið dúsu frá ríkinu í formi rithöfundalauna. Þá kom á daginn að Einar hafði ekki klárað umsókn sína með því að senda tölvupóst með bænaskjalinu góða. Guðmundur Andri rifjaði upp í athugasemd á Facebook að Einar gleymdi að ýta á send.
Einar brást ókvæða við þessu í færslu á Facebook og taldi Guðmund Andra hafa verið hina mesti liðleskju þegar hann sat á þingi fyrir Samfylkinguna. Skilja má á Einari að Guðmundur Andri hafi ekki efni á slíku gríni. Að vísu sé þó rétt að umsóknin hafi verið ófullnægjandi.
„Andri gerir grín að þessu, en sjálfur var hann þá allt árið með tæpar tvær milljónir á mánuði fyrir þægilega þingsetu, svo að honum var eðlilega léttur hlátur í huga yfir þeim félögum sem fengu ekki einu sinni þessa þrjá, eða sex, þrjúhundruðþúsundkalla sem menn betla eftir með flóknu umsóknarferli. Andri var að vísu, eins og allir vita, að mestu verklaus í þinginu, en gefum honum þó að hann klikkaði örugglega aldrei á að „ýta á send“ er hann sóttist eftir greiðslum,“ skrifar Einar.
Nokkrar athugasemdir eru við romsu Einars um Guðmund Andra og blöskrar flestum hve harkalega er farið að greyinu. Ljótt af Einari var ein einkunnin. Meðal þeirra sem skamma orðhákinn Einar er sjálfur Jón Viðar Jónsson leikhúsfræðingur sem þó kallar ekki allt ömmu sína.
„Þessi færsla er fyrir neðan þina virðingu, Einar. Hvet þig til að eyða henni og þá gleymist hún vonandi fljótt,“ skrifar Jón Viðar …