Óli Björn Kárason, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, er búinn að fá nóg af Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra. Hann skrifar í dag blaðagrein og lúskrar á ráðherranum vegna hvalveiðibannsins. Þingflokksfornaðurinn lýsir vantrausti á ráðherrann. „Ráðherrann hefur kastað blautri tusku í andlit allra þingmanna samstarfsflokka ríkisstjórnarinnar,“ segir Óli Björn í grein sinni.
Hann segir það vera pólitískan barnaskap að halda að framganga Svandísar hafi ekki áhrif á stjórnarsamstarfið. „Traust milli matvælaráðherra og stjórnarþingmanna er lítið og það mun hafa áhrif á samstarf þeirra á komandi mánuðum,“ segir hann í grein sinni.
Fullvíst er talið að Óli Björn hafi fengið greinina birta í samráði við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins. Það er einnig augljóst að Svandís setti á hvalveiðibannið í fullu samráði við Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstri grænna. Augljóst er að stjórnarsamstarfið er í beinum háska. Baneitrað samband VG og Sjálfstæðisflokksins virðist vera að renna sitt skeið á enda …