Sú ákvörðun Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra að ráða Brynjar Níelsson, pólitískt gjaldþrota fyrrverandi þingmann, sem aðstoðarmann sætir mikilli gagnrýni og þykir dæmi um þann hugsunarhátt sem ræður ríkjum innan Sjálfstæðisflokksins. Brynjar hefur ekki í neinu markað spor sín á Alþingi. Hann var að margra mati einfaldlega værukær brandarakarl í þægilegri innivinnu á kostnað skattborgara. Framtaksleysið varð honum síðan að falli. Í stað þess að fóta sig á einkamarkaði var hann tekinn inn í ráðuneyti dómsmála eins og hver annar ómagi. Jón ráðherra var þegar með öflugan aðstoðarmann, Hrein Loftsson, sem hann fékk í arf frá Áslaugu Örnu Sigurgeirsdóttur, fráfarandi dómsmálaráðherra. Með ráðningu Brynjars er Sjálfstæðisflokkurinn að senda reikning upp á rúmlega milljón krónur á mánuði á skattborgara. Allt er þetta undir flaggi flokks sem kennir sig við einkaframtak og minni ríkisumsvif en raðar gæðingum sínum, jafnt sem húðarklárum, á jötu ríkisins …