Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs og frambjóðandi Samfylkingar, hefur uppskorið bæði aðhlátur og grát eftir að Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingar, tók af skarið um að hann væri ekki ráðherraefni flokksins og fólki væri velkomið að stroka hann út.
Ættmenni Dags hafa snúist honum til varnar. Fyrst var það bróðir hans, Gauti Eggertsson, sem skildi minnst í því að stór hluti Samfylkingar vildi ekki Dag í framboð. Í gær steig síðan faðir hans, Eggert Gunnarsson dýralæknir fram og hæddist að Kristrúnu formanni og öðrum oddvitum flokksins.
„Kristrún hefur látið að því liggja að komi til þess að Samfylkingin myndi ríkisstjórn verði Dagur B. Eggertsson ekki ráðherraefni enda sé hann hann feta sig á nýjum slóðum. Fyrir í fleti séu leiðtogar flokksins í hinum ýmsu kjördæmum. Og hverjir eru svo þessir snillingar,“ spyr Eggert í færslu á Facebook og reiði hans leynir sér ekki.
Hann telur svo upp ráðherraefni Samfylkingar, væntanlega til að sýna fram á hve heimskulegt það sé að hafna syninum hugumprúða.
„Fyrir utan hana sjálfa eru það: Jóhann Páll Jóhannsson, alþingismaður til þriggja ára; Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og ritari Samfylkingarinnar; Logi Einarsson, alþingismaður og frv. formaður; Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn; Alma Möller, landlæknir …,“ skrifar Eggert og tíundar svo kosti sonarins og yfirburðareynslu. Mogginn hefur síðan endurómað færslu Eggerts og veitt Degi stuðning á erfiðum tímum. Spurt er um einlægni. Flestur hafa fagnað frumkvæði Kristrúnar og þeim fastatökum í að endurnýja flokkinn sem aðgerð hennar lýsir.
Dagur hefur sjálfur tekið höfnunni vel opinberlega. Hann sagði á RÚV að hann hefði sjálfur óskað eftir öðru sæti á listanum og þar með minni ábyrgð. Fullyrt er innan Samfylkingar að hann hafi upphaflega sóst eftir því að verða oddviti í öðru Reykjavíkurkjördæmanna en því hafi verið hafnað af Kristrúnu og uppstillinganefnd. Það er því í besta falli hálfsannleikur að hann hafi sjálfur óskað eftir aukahlutverki …