Páll Vilhjálmsson, bloggari Morgunblaðsins, sakar þekktan blaðamann um það að hafa svikið allt að 25 milljón krónur undan skatt með leigu á húsnæði sínu á leigumiðluninni airbnb. Það einkennilega er að Páll gefur ekki upp fann blaðmannsins/konunnar, heldur fer í kringum það sem köttur í kringum heitan graut.
Páll hefur gjarnan verið óvæginn í skrifum sínum, sérstaklega um fjölmiðlafólk sem hann hefur nafngreint og sakað um siðleysi og jafnvel þátttöku í byrlun og tilraun til manndráps. þetta varð til þess að hann fékk dóm í undirrétt fyrir meiðyrði. Honum var gert að greiða þeim Þórði Snæ Júlíussyni, þáverandi ritstjóra Kjarnans, og Arnar Þór Ingólfssyni blaðamanni Kjarnans, 600 þúsund krónur.
Páll útskýrir nafnleyndina og kjarkleysi sitt í færslu. „ … Líkur eru töluverðar að bloggara yrði stefnt ef hann upplýsir nafn loddarans er útdeilir sekt og sýknu daginn út og inn en er sjálfur brotamaður á bakvið tjöldin. Fyrir rétti stæði tilfallandi frammi fyrir tveim slæmum kostum. Að brjóta trúnað gagnvart heimildamanni eða leggja ekki fram þau gögn sem staðfesta frásögnina og fá dóm fyrir meiðyrði …,“ skrifar Páll.
Ljóst má vera að ásakanir Páls eru það alvarlegar að viðkomandi mun að líkindum missa embætti og vinnu ef málið verður opinberað með þeim hætti. Jafnframt liggur fyrir að ef ásakanirnar reynast rangar er um alvarlega tilraun til mannorðsmorðs að ræða. Flestum fjölmiðlum landsins er ljóst um hvern er að ræða. Mannlíf hefur sent þeim sem ásakaður er spurningar varðandi meint undanskot en fær engin svör …