- Auglýsing -
Uppákoma varð á herrakvöldi í Hvíta húsinu á Selfossi um helgina. Annar tveggja ræðumanna kvöldsins var Snorri Másson, frambjóðandi Miðflokksins, sem boðaður var til að halda ræðu og skemmta gestum. Snorri er ein bjartast von Miðflokksins og þykir hafa þokka sem fellur vel að klaustursveinum flokksins.
Hermt er að atburðir kvöldsins hafi tekið aðra stefnu en vonir stóðu til. Snorri mætti í ræðustól til að deila gildi og góðvild fulltrúa Miðflokksins og taldi sig væntanlega vera í vinsamlegu umhverfi á meðal Sunnlendinga. Salurinn tók ekki eins vel í ræðuna og vonast hafði verið til. Áheyrendur hófu að púa eftir örfáar mínútur. Einhver gestanna kallaði „er þetta einhver helvítis kosningafundur?“
Óánægja með boðskap ræðumannsins magnaðist og Snorri gafst upp á að halda áfram með ræðu sína og steig af sviðinu. Hávært klapp og fögnuður gaf til kynna að viðstaddir söknuðu hans ekki. Margir telja kvöldið hafa verið eftirminnilegt en að uppákoman hafi ekki aukið vinsældir Miðflokksins …