Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur átt góða og sumpart friðsæla tíma í ráðuneyti sínu. En sú tíð er að baki. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að brýna klærnar og skerpa á andstöðu í málum sem eru Katrínu viðkvæm. Allt er komið í lás í stjórnarskrármálinu sem hefur verið eitt af stærstu kosningaloforðum Katrínar að leiða til lykta. Nú er komið á daginn að engin samstaða er á milli formanna flokkanna. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, standa fastir fyrir gegn breytingum. Katrín hefur boðað vonlaus þingmannafrumvörp til að losna úr sjálfheldunni. Það sama gerði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sem forsætisráðherra en fékk auðvitað ekki brautargengi. Flétta Katrínar gæti verið sú að henda inn frumvörpunum og geta sagt að hún hafi reynt allt til að friðþægja kjósendur sína og aðra þá sem dáðust að vilja hennar til að breyta. Stjórnarskrármálið er sjóðheit og baneitruð kartafla sem markaði á sínum tíma endalok ferils Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrverandi forsætisráðherra. Aðrir brestir í samstarfi stjórnarflokkanna snúast um fjölmiðlafrumvarp Lilju Alfreðsdóttur sem komið er í pappírstætarann að kröfu Sjálfstæðisflokksins. Flest bendir til þess að líf núverandi ríkisstjórnar sé komið á endastöð og ríkisstjórnin í öndunarvél …