Eftir nokkurn seinagang hefur Sósíalistaflokkurinn upplýst að Gunnar Smári Egilsson, stofnandi flokksins, verði leiðtogi í Reykjavík norður. Gunnar Smári segir á Facebook að Sanna Magdalena Mörtudóttir, formaður kjörstjórnar og pólitískur leiðtogi Sósíalistaflokksins á sviði Alþingis og sveitastjórna, hafi óskað eftir því að hann tæki að sér oddvitasæti flokksins í Reykjavík norður.
„Ég féllst á það og tillagan var borin upp á félagsfundi í kvöld og samþykkt. Ég mun reyna að sameina starf mitt á Samstöðinni …,“ skrifar Gunnar Smári sem haldið hefur Samstöðinni úti með stæl. Hann verður í kjörstöðu fram að kosningum og getur kallað til pólitíska andstæðinga líkt og samherja til skrafs á Samstöðinni þar sem hann situr gjarnan í sæti spyrils. Annar stjórnandi á Samstöðinni, Björn Þorláksson, er í framboði fyrir Flokk fólksins sem gefur honum forskot.
Gunnar Smári hefur fram til þess farið með flest völd í flokki sínum. Nú kemur á daginn að það er Sanna sem mestu ræður; eða þannig …