Sjálfstæðismenn hafa lengi talið eðlilegt að þeir leiddu í borgarstjórn Reykjavíkur. Óratími er síðan þeir voru í þeirri stöðu á eigin verðleikum. Mörgum er í fersku minni þegar flokkurinn gerði Ólaf F. Magnússon að borgarstjóra og uppskar aðhlátur. Þrautaganga flokksins hefur staðið allar götur síðan Hanna Birna Kristjánsdóttir missti borgina til Jóns Gnarr og Besta flokksins. Eyþór Arnalds, núverandi leiðtogi, þykir hafa staðið sig vel í stjórnarandstöðu en vandinn er innbyrðis átök í borgarstjórnarflokknum þar sem Hildur Björnsdóttir og hennar fylgifiskar ganga ekki í takti við leiðtogann. Aðrir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þykja litlausir og ekki líklegir til að leiða flokkinn til stórsigurs. Staldrað er við þá hugmynd að kalla inn bjargvætt. Þar hafa menn staldrað við nafn Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi sem þykir í senn tannhvöss og klár í þeim slagsmálum sem þarf í herleiðangrinum til að ná Borginni af Degi B. Eggertssyni og félögum og rjúfa niðurlægingartímabil Sjálfstæðisflokksins …