Upplýsingar úr starfslokasamningum toppanna hjá Íslandsbanka hafa smám saman verið að leka út. Upplýst hefur verið að Ásmundur Tryggvason, sem hætti á laugardaginn fær greidda tólf mánuði eftir að hafa klúðrað málum sem framkvæmdastjóri á sviði fyrirtækja og fjárfesta. Vísir reiknar út að að hann fái greiddar 47 milljónir króna við starfslokin, ef miðað er við laun seinasta árs. Birna Einarsdóttir bankastjóri fær 48 milljónir króna að lokum fyrir sitt framlag. Þá fær Atli Rafn Björnsson greidda sex mánuði sem eru nálægt 24 milljónum króna. Þessar upphæðir miðast við laun síðasta árs.
Árslaun toppanna tóku mið af ábyrgð þeirra á rekstri bankans. Tjónið vegna framkvæmdar útboðsins nemur að líkindum milljörðum króna ef stórskaðað orðspor bankans er metið. Þá má reikna með því stórtjóni sem stefnir í vegna slita á sameiningarviðræðum við Kviku banka. Starfslokasamningar upp á meira en 130 milljónir króna eru sem krækiber í helvíti miðað við þau ósköpn öll sem dynja á bankanum vegna svikanna við útboðið.
Mikil gagnrýni hefur brotist fram í samfélaginu vegna þess að fólk sem valdið hefur bankanum stórtjóni skuli leyst út með slíkum hætti. Spurt er hvort umræddir ábyrgðarmenn bankans eigi ekki að frekar að standa almenningi í landinu reikningsskil gjörða sinna. Ragnar Örn Ingólfsson, formaður VR, hefur hótað að slíta viðskiptum stéttarfélagsins við bankann vegna þess siðleysis sem blasir við. En það er líklega fráleitt að ætla að skaðvaldar Íslandsbanka verði krafðir um bætur vegna aðgerða sinna eða aðgerðarleysis. Þeir fá einfaldlega kveðjugjafir og halda heim með gull í farteskinu …