Eftir stórkarlalegar yfirlýsingar um brot ráðherra Vinstri-grænna í andófi sínu gegn hvalveiðum komst Óli Björn Kárason að þeirri niðurstöðu að best væri að vera stilltur og styðja ekki tillögu Berþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins, á Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur matvælaráðherra. Óli Björn hefur, allt frá því Svandís Svavarsdóttir, þáverandi matvælaráðherra bannaði hvalveiðar, fordæmt ráðherra VG og hótað illu vegna brota flokksins gegn Hvali hf.
Margir voru þeir sem veltu vöngum yfir því hvað Óli Björn myndi gera í núverandi stöðu. Sjálfur var hann þöguill sem gröfin þar til kom að atkvæðagreiðslunni. „Ég mun aldrei vera í liði með þeim sem reyna að fella ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Ég mun, þegar ég vakna í fyrramálið, líta glaður í spegil og nokkuð sáttur við sjálfan mig, eftir að hafa sagt nei,“ sagði Óli Björn þegar hann studdi VG og sló líklega met í hræsni og yfrborðspólitík. Spegill, spegill herm þú mér …