Það er gríðarlega mikið undir hjá Vesturporti þessa daganna því hópurinn stendur fyrir leiknum þáttum um Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, en fyrsti þátturinn verður sýndur á nýársdag á RÚV og þættirnir munu verða fjórir í heildina.
Það eru fáir hlutir sem sameina þjóðina eins og Vigdís og verði þættirnir eitthvað annað en stórkostlegir má búast við gífurlega hörðum viðbrögðum, þá sérstaklega hjá þeim sem eldri eru, en margir telja Vigdísi vera einn mikilvægasta og merkilegasta Íslending 20. aldar.
Litlar áhyggjur þarf þó sennilega að hafa af þeim leikkonum sem leika forsetann fyrrverandi en Elín Hall leikur Vigdísi á hennar yngri árum og tekur Nína Dögg Filippusdóttir við þegar nær dregur kjöri Vigdísar til forseta en líklega eru fáar betri leikkonur að finna á Íslandi í dag. Björg Magnúsdóttir og Ágústa M. Ólafsdóttir sjá svo um að skrifa handrit þáttarins en þær þykja báðar góðir pennar sem eiga framtíðina fyrir sér í kvikmyndagerð.