Mogginn fór mikinn á vængjum smelludólga þegar miðillinn birti frétt um að Stuðmenn hefðu verið úrskurðaðir gjaldþrota í Héraðsdómi Reykjaness. Fréttin flaug í fyrsta sæti yfir mest lesna efnið á Mogganum. Hljómsveit allra landsmanna virtist vera komin fjárhagslega að fótum fram eftir að hafa glatt landsmenn hátt í hálfa öld.
Við nánari skoðun kom á daginn að Davíð Oddsson og hans fólk á Mogganum var að selja allt aðra vöru. Jakob Frímann Magnússon, forsprakki Stuðmanna, var hvergi nærri í fréttinni, enda snérist þetta um allt aðra stuðbolta. Fyrirtækið Stuðmenn ehf. var nefnilega stofnað í október 2016 og lifði í rétt tæp fjögur ár. Tilgangur þess var rekstur rafverktakafyrirtækis, innflutningur raflagnaefnis og þjónusta varðandi nýlagningu og viðhald raflagna. Tónlistarflutningur kom hvergi við sögu. Þeir sem eru með kröfur á Stuðmenn hafa samband við Hólmgeir El. Flosason skiptastjóra búsins.