Svavar Halldórsson, fyrrverandi fréttamaður og lambakjötssali, hefur undanfarið verið að gera sig gildandi og sýnilegan. Svavar er með aðsendar greinar í bæði Morgunblaðinu og Fréttablaðinu. Í Mogga er hann kynntur sem áhrifamaður í Sjálfstæðisflokknum. Áður starfaði hann sem framkvæmdastjóri á vegum sauðfjárbænda en er hættur þar. Ef lesið er á milli lína er ljóst að hann elur með sér draum um pólitísk áhrif og vegtyllur og þá væntanlega á vettvangi Sjálfstæðisflokksins. Hann hafði þau einu afskipti af pólitík að standa sem klettur að baki forsetaframboði eiginkonu sinnar, Þóru Arnórsdóttur, ritstjóra Kveiks. Svavar er sumpart umdeildur en hefur umtalsverða útgeislun og býr yfir nokkrum sannfæringarkrafti. Hann gæti því komist á skrið ef lukkuhjólið snýst honum í hag …