Það verður ekki tekið af Eyþóri Arnalds, fyrrverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, að þegar hann skrifar tíst vekur það yfirleitt athygli en þó ekki fyrir þær ástæður sem flestir sækjast eftir. Fyrir stuttu virtist tónlistarmaðurinn geðþekki gleyma að hann ætti stóran hlut í Morgunblaðinu þegar hann óskaði eftir því að fjölmiðlamenn litu í spegilinn og sagði að hefðbundnir fjölmiðlar væru búnir að missa salinn.
Í tísti í gær kvartaði Eyþór yfir því að fyrsti áfangi borgarlínu yrði ekki tekinn í notkun fyrr en árið 2031 en upphaflega stóð til að slíkt yrði að raunveruleika árið 2023. Þó það vissulega sé aldrei gott þegar jafn stór verkefni tefjast verður að benda á að fáir hafa reynt að tefja byggingu Borgarlínunnar jafn mikið og Eyþór sjálfur og félagar hans í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins. Hugsanlega ætti Eyþór að líta í spegilinn …