Margir eru í forundran vegna úrslita í forvali Vinstri-Grænna í Suðurkjördæmi. Nokkrar stórkanónur höfðu auðmjúklega boðist til að verða leiðtogar við brotthvarf Ara Trausta Guðmundssonar alþingismanns sem markaði sín spor með því að vinna þingsæti í kjördæmi sem hafði verið einskonar pólitísk eyðimörk VG. Kolbeinn Óttarsson Proppé, sitjandi þingmaður VG, Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, og Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, varaþingmaður og umhverfisfrömuður, töldust öll líkleg til að hreppa oddvitasætið. En það fór allt á annan veg og Hólmfríður Árnadóttir, skólastjóri Sandgerðisskóla, hreppti hnossið. Heiða lenti í öðru sæti en þingmaðurinn Kolbeinn í því fjórða. Hann var því sleginn kaldur og á ekki von um að setjast aftur á þing sem aðalmaður. Einhverjir telja eðlilegt að hann verði færður upp í annað sæti af jafnréttissjónamiðum þar sem þrjár konur eru í efstu sætum. Kolbeinn hefur verið einkar dyggur liðsmaður ríkisstjórnarinnar og verður hans saknað úr þeim ranni. Róbert komst ekki á blað. Suðurkjördæmi hefur stundum verið óútreiknanlegt. Gjarnan er rifjað upp að Sunnlendingar kusu Árni Johnsen á þing, eftir að hann hafði afplánað dóm fyrir spillingu …