Fréttaskýringaþátturinn Kveikur í Ríkisútvarpinu þótti fara illa á hliðina í gærkvöld þegar einhliða frásögn Þóris Sæmundssonar leikara var eina efni þáttarins. Það var Þóra Arnórsdóttir ritstjóri sem saumaði saman fjögurra vasaklúta frásögn Þórs svo úr varð mikil harmsaga sem hefði getað sómt sér á síðum Vikunnar.
Málið snýst um sniðgöngu vegna þess að leikarinn hafði sent 15 ára stúlkum typpamynd af sér að launum fyrir nektarmyndir af þeim. Nokkrum mánuðum seinna var hann rekinn frá Þjóðleikhúsinu. Áður hafði hann fengið ákúrur fyrir að fara yfir mörk konu eða kvenna í Borgarleikhúsinu. Síðan þetta var fyrir fjórum árum hefur hann ekki fengið hlutverk eða haldið vinnu neins staðar vegna þess að typpamál hans gúgglast. Efnistök Þóru voru furðuleg og lítt sæmandi þættinum sem kennir sig við rannsóknarblaðamennsku. Saga Þóris er í sjálfu sér áhugaverð og sláandi en meðferðin í þættinum hefur kallað yfir Ríkisútvarpið reiðibylgju á samfélagsmiðlum. Sjálf gortaði Þóra af því í útvarpsviðtali á eigin vinnustað að hún óttaðist ekki hefnd vegna umfjöllunarinnar.
Í ritstjóratíð Þóru hafa margir bestu fréttamenn landsins hætt störfum hjá Kveik. Lára Ómarsdóttir, Stefán Drengsson og Aðalsteinn Kjartansson eru öll farin. Þá er besti maður Kveiks, Helgi Seljan, í löngu leyfi …